Hoppa yfir valmynd

Mótmæli íslenskra stjórnvalda ítrekuð

Sendiherra Íslands í Noregi afhenti norskum stjórnvöldum í dag orðsendingu þar sem ítrekuð voru mótmæli íslenskra stjórnvalda við setningu reglugerðar frá 11. desember 2003 um bann við veiðum á norsk-íslenskri síld á svonefndu fiskverndarsvæði við Svalbarða á árinu 2004 og reglugerð frá 14. júní um aflahámark á svæðinu, alls 80.000 tonn.

Í orðsendingunni er ítrekað að áðurnefndar reglugerðir séu ekki byggðar á samningnum um Svalbarða frá 9. febrúar 1920 sem að mati íslenskra stjórnvalda er eini lagalegi grundvöllur fullveldisréttinda Noregs á hafsvæðum við Svalbarða. Íslensk stjórnvöld líti svo á að reglugerðirnar eigi sér enga stoð í og feli í sér brot á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og almennum reglum þjóðaréttar. Ísland sé því óbundið af umræddum reglugerðum.

Enn fremur var ítrekað að íslensk stjórnvöld líta svo á að þær takmarkanir á veiðiheimildum og veiðisvæðum, sem mælt er fyrir um í 3. gr. reglugerðarinnar frá 14. júní 2004, fari í bága við samninginn um Svalbarða og fái ekki staðist, enda eru þær ekki byggðar á vísindalegum grunni.

Norsk stjórnvöld eru hvött til að gera ráðstafanir til þess að reglur um veiðar á norsk-íslenskri síld á hafsvæðum við Svalbarða verði byggðar á samningnum um Svalbarða og verði í samræmi við ákvæði samningsins, þ.m.t. ákvæði 2. gr. hans um jafnan rétt aðildarríkja samningsins til fiskveiða án nokkurra undantekninga, forréttinda eða ívilnana sem eru beint eða óbeint til hagsbóta fyrir eitthvert þeirra. Norsk stjórnvöld eru ennfremur hvött til þess að láta hjá líða að freista þess með einhverjum hætti að hindra Ísland í að beita rétti sínum til veiða á norsk-íslenskri síld á hafsvæðum við Svalbarða.


Reykjavík, 12. ágúst 2004.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics