Hoppa yfir valmynd

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar 2002. Greinargerð: 21. febrúar 2002

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar 2002 (PDF 16K)1

Nú liggja fyrir tölur um greiðsluafkomu ríkissjóðs í janúar 2002. Uppgjörið hér á eftir sýnir sjóðhreyfingar og er sambærilegt við almenn sjóðstreymisyfirlit. Tölurnar eru því ekki samanburðarhæfar við ríkisreikning eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni.

Samkvæmt þessum tölum nam handbært fé frá rekstri rúmum 700 m.kr. til samanburðar við 1,8 milljarða í janúar 2001. Tekjurnar eru 18,6 milljarðar króna og hækka um ríflega 1 milljarð frá fyrra ári, eða um 6%. Innheimta tekna í janúar bendir til þess að ekkert lát sé á samdrætti innlendrar eftirspurnar. Þannig lækka tekjur af virðisaukaskatti umtalsvert milli ára, eða um 16%, og vörugjald af bifreiðum er 32% minna en á sama tíma í fyrra. Tekjuskattar einstaklinga og fjármagnstekjuskattur skila hins vegar umtalsverðum tekjuauka miðað við fyrra ár. Samanlagt aukast skatttekjur um tæplega 6% milli ára sem jafngildir 3% samdrætti að raungildi. Frávik frá áætlun er um 1,2 milljarðar sem einkum má rekja til minni innheimtu veltuskatta. Rétt er að hafa fyrirvara á þessum samanburði þar sem hér er einungis um innheimtu eins mánaðar að ræða.

Greidd gjöld nema 17,9 milljörðum króna og hækka um 2,1 milljarð frá fyrra ári, en það skýrist einkum af hærri framlögum til ýmissa félagsmála. Þannig nam hækkun til skólamála og heilbrigðismála um 1 milljarði og til almannatrygginga um 300 m.kr. Ef útkoman er borin saman við áætlun, þá urðu gjöldin um 1,9 milljarði króna hærri sem skýrist af sömu liðum. Þar sem uppgjörið nær aðeins til eins mánaðar er samanburður við fyrra ár og áætlun háður nokkurri óvissu vegna þess að greiðslur geta færst til milli mánaða.

Lántökur innanlands námu 4,4 milljörðum króna en afborganir voru tæpar 400 m.kr. Þá voru greiddar 750 m.kr. til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í því skyni að lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs. Greiðsluafkoma ríkissjóðs var jákvæð um 3,1 milljarð króna, samanborið við 1,8 milljarða í janúar 2001.


1 Nokkrar breytingar verða á birtingu mánaðarlegra talna um greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrir árið 2002. Sem fyrr verða birtar helstu afkomu-, tekju- og gjaldastærðir á töfluformi. Í vefriti ráðuneytisins, fjr.is, verður auk þess fjallað sérstaklega um helstu niðurstöður. Nánari upplýsingar um birtingartíma afkomutalna er að finna á vefsíðu ráðuneytisins.




    Tags

    Contact us

    Tip / Query
    Spam
    Please answer in numerics