Hoppa yfir valmynd

Ræðismenn leggja Íslendingum lið með ómetanlegu sjálfboðaliðastarfi

Ræðismenn Íslands í Norður- og Suður-Ameríku ásamt sendiherrum og ráðherra. - mynd

Sendiráð Íslands í Bandaríkjunum og Kanada auk fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum efndu til ræðismannafundar 16. - 17. september í Washington fyrir ræðismenn Íslands í Bandaríkjunum, Kanada og Mið- og Suður-Ameríku. Tugir ræðismanna Íslands starfa á þessu víðfeðma svæði og kom stór hluti þeirra til fundarins. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, var sérstakur gestur á fundinum.

“Ræðismenn Íslands gegna mikilvægu þjónustuhlutverki fyrir Íslendinga og eru tengiliðir við ólík samfélög. Það er mikil samheldni í þessum hópi sem leggur landi og þjóð lið með ómetanlegu sjálfboðaliðastarfi," segir Geir H. Haarde sendiherra Íslands í Bandaríkjunum sem stýrði fundinum.

Dagskráin var fjölþætt, enda var markmiðið að kynna áherslur í starfi utanríkisþjónustunnar, viðskipta- og fjárfestingatækifæri og stöðu efnahagsmála á Íslandi. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, flutti erindi um efnahagsaðgerðir íslenskra stjórnvalda á undanförnum árum, horfur í íslensku efnahagslífi og ræddi um afstöðu Íslands til ýmissa alþjóðamála.

Hlynur Guðjónsson, aðalræðismaður og viðskiptafulltrúi í New York, flutti erindi um þau fjárfestinga- og viðskiptatækifæri sem eru fyrir hendi á Íslandi. Harald Aspelund, skrifstofustjóri rekstrar- og þjónustuskrifstofu og Dóra Ásgeirsdóttir deildarstjóri fjölluðu um áherslur í borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar og fóru yfir vinnureglur varðandi formlega þætti, s.s. útgáfu og framlengingu vegabréfa, utankjörstaðarkosningar o.fl. Þá ávarpaði Örn Arnar ræðismaður í Minneapolis einnig fundinn auk sendiherranna Sturlu Sigurjónssonar og Einars Gunnarssonar.

Miklar og gagnlegar umræður fóru fram á fundinum.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics