Hoppa yfir valmynd

50 ára afmæli EFTA, Fríverslunarsamtaka Evrópu

Í dag eru liðin 50 ár frá undirritun Stokkhólmssáttmálans, stofnsáttmála EFTA, Fríverslunarsamtaka Evrópu. Samtökin voru upphaflega stofnuð af sjö ríkjum sem annaðhvort gátu ekki gengið eða vildu ekki ganga í Efnahagsbandalag Evrópu fyrirrennara Evrópusambandsins. Þau voru Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Svíþjóð og Sviss. EFTA-sáttmálinn gekk í gildi 3. maí 1960. Ísland gerðist aðili að EFTA tíu árum síðar, hinn 22. janúar 1970 og tók aðildin gildi 1. mars 1970. Auk Íslands eru Noregur og Sviss enn aðilar að EFTA, að viðbættu Liechtenstein sem gerðist aðili að samtökunum árið 1991. Önnur EFTA-ríki hafa gengið í Evrópusambandið.

Fullyrða má að aðild Íslands að EFTA hefur haft jákvæðar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf í gegnum árin. Helstu áfangarnir eru gerð tvíhliða fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við Efnahagsbandalag Evrópu 1972, afnám tolla og annarra viðskiptahindrana á áttunda áratugnum við aðildarríki EFTA og Efnahagsbandalagsins, gildistaka EES-samningsins 1994 og gerð 30 fríverslunarsamninga við ríki víðs vegar um heiminn frá og með 1979 til dagsins í dag (þar af eru 16 nú í gildi). Stærstu ríkin í þeim hópi eru Egyptaland, Kanada, Mexíkó og Suður-Kórea. Samningaviðræður standa yfir við ýmis ríki, m.a. Indland og Úkraínu. Frekari fríverslunarviðræður eru í farvatninu, m.a. við Indónesíu og Hong Kong. Fríverslunaviðræður taka yfirleitt til viðskipta með vöru og þjónustu, fjárfestinga og hugverkaréttinda.

Ísland tók við formennsku EFTA-ráðsins 1. janúar sl. til næstu sex mánaða. Árlegur sumar-ráðherrafundur EFTA verður haldinn í Reykjavík 24.-25. júní n.k. sem verður jafnframt 50 ára afmælisfundur samtakanna.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics