Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Brussel

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, sat utanríkisráðherrafund Norður-Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag. Á fundinum áréttuðu ráðherrarnir mikilvægi Atlantshafstengslanna og bandalagsins sem grundvöll sameiginlegra varna og vettvangs samráðs milli Evrópu og Norður-Ameríku um öryggismál.

Þá ræddu þeir þann árangur sem náðst  hefði í Afganistan og frekari aðgerðir bandalagsins þar í landi til að tryggja öryggi í komandi þingkosningum.  Jafnframt ræddu þeir þjálfunaraðgerð bandalagsins í Írak til að aðstoða stjórnvöld þar við að koma á fót öryggissveitum sem er lykilþáttur við að aðstoða írönsk stjórnvöld við að tryggja öryggi í komandi kosningum í janúar nk.  Varðandi málefni Balkanskaga fögnuðu ráðherrar árangursríkum lokum friðargæslu á vegum bandalagsins í Bosníu-Hersegóvinu, sem Evrópusambandið hefur nú tekið yfir.  Staðfestar voru skuldbindingar gagnvart ríkjum Balkanskaga og þau hvött til að sýna fulla samvinnu við Alþjóða stríðsglæpadómstólinn fyrir fyrrum Júgóslavíu í Haag.   Ráðherrar lýstu ánægju með þann árangur sem Albanía, Króatía og  Makedónía hafa náð til að mæta skilyrðum fyrir aðild að bandalaginu en jafnframt hvöttu þeir eindregið til að þau héldu áfram nauðsynlegum umbótum.

Ráðherrarnir fjölluð einnig sérstaklega um ástandið í Úkraínu og lýstu ánægju með ákvörðun stjórnvalda um að endurtaka síðari umferð forsetakosninganna þar í landi þann 26. þ.m..  Þá hvöttu þeir alla aðila til að stuðla að því að kosningarnar fari fram friðsamlega án allrar utanaðakomandi íhlutunar.

Einnig voru haldnir fundir í samstarfsráði bandalagsins og Rússlands og Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu.

Kvöldið fyrir utanríkisráðherrafundinn sat Davíð Oddsson sérstakan hátíðarkvöldverð með ráðherrum ríkja við Miðjarðarhafið í tilefni 10 ára afmæli samstarfs bandalagsins við þessi ríki.

Nánari upplýsingar um ofangreindan fund er að finna á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins (www.nato.int), þ.á.m. yfirlýsingu fundanna.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics