Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra fundar með forseta Úkraínu 

Gunnar-Bragi-fundar-med-Poroshenko

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti fund í Kænugarði í kvöld með Petro Poroshenko, forseta Úkraínu og Pavlo Klimkin utanríkisráðherra landsins. Gunnar Bragi er nú í tveggja daga heimsókn í Úkraínu ásamt Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands. Auk þeirra tveggja tók Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, þátt í fundinum með forsetanum.

"Það er afar mikilvægt að Úkraína fái þrifist sem opið lýðræðisríki sem búi í sátt og samlyndi við öll grannríki sín. Á fundinum ræddum við hvernig lægja megi öldurnar í austurhluta landsins og tryggja frið og öryggi fyrir alla íbúa landsins" segir Gunnar Bragi. 

Gunnar Bragi segir áríðandi að komið verði á vopnahléi og að deiluaðilar setjist að samningaborði hið fyrsta. Aðskilnaðarsinnar í austurhluta landsins hafa ekki enn ljáð máls á því, sem sé mikið áhyggjuefni. Hann hvetur rússnesk stjórnvöld til að hlutast til um að aðskilnaðarsinnar leggi niður vopn og taki þátt í viðræðum til að miðla málum.

Þá ítrekar utanríkisráðherra að innlimun Rússlands á Krímskaga brjóti í bága við alþjóðalög. "Það varðar hagsmuni Íslands miklu að alþjóðalög séu ávallt virt. Þess vegna skipta atburðir liðinna mánaða í Úkraínu máli fyrir okkur. Með heimsókn minni núna vil ég undirstrika það að rödd Íslands heyrist til varnar alþjóðalögum og reglu" segir Gunnar Bragi. 

Á fundinum ræddi Gunnar Bragi einnig vilja Íslands til að styðja við bakið á Úkraínu í orkumálum.  

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics