Hoppa yfir valmynd

Viðskipti Íslands og Brasilíu verði aukin 

Gunnar Bragi og Figueiredo, utanríkisráðherra Brasilíu.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í gær fundi með Luiz Alberto Figuereido, utanríkisráðherra Brasilíu, og Neri Geller, landbúnaðarráðherra í Brasilia, höfuðborg Brasilíu. Með heimsókn sinni til Brasilíu fylgir Gunnar Bragi eftir samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að efla viðskiptaleg tengsl við þau svæði í heiminum þar sem mestur efnahagsvöxtur er.

Á fundi Gunnars Braga með Figuereido ræddu utanríkisráðherrarnir viðskipti milli landanna og möguleika á að auka þau. Ræddu þeir möguleikann á að hefja fríverslunarviðræður milli EFTA-ríkjanna og MERCOSUR-viðskiptabandalagsins, sem Argentína, Brasilía, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela eru aðilar að en bandalögin undirrituðu samstarfsyfirlýsingu árið 2000. Kvaðst Figuerido ætla að kalla saman sameiginlega nefnd EFTA og MERCOSUR þegar Brasilía tekur við formennsku í bandalaginu í byrjun næsta árs.

Þá lýstu ráðherrarnir vilja til þess að klára loftferðarsamning milli landanna en fyrir liggur óstaðfestur samningur frá 2010 og ræddu einnig mögulegan fjárfestingasamning. Munu embættismenn fylgja hvorutveggja eftir. Figuereido, utanríkisráðherra Brasilíu, sagði að áhugavert væri að sjá samstarf milli Íslands og Brasilíu í nýtingu sjávaraflans. Íslensk sérþekking væri líkleg til þess að bæta við verðmæti afurðanna.

Á fundi Gunnars Braga með Neri Geller landbúnaðarráðherra var einkum rætt um leiðir til að greiða fyrir útflutningi sjávarafurða til Brasilíu. Í því sambandi óskaði Gunnar Bragi eftir nánara samstarfi landanna um eftirlit með hollustuháttum og heilbrigði dýra, m.a. hvað varðar innflutning íslenskra sjávarafurða til Brasilíu og upplýsingagjöf þar að lútandi. Brasilíski raðherrann ítrekaði að þeir myndu finna lausn á vandamálinu.

Þá ræddu ráðherrarnir um landgræðslumál og matvælaöryggi heimsins en á 30 árum hefur Brasilía farið frá því að vera innflytjandi matvæla í að vera stór útflytjandi. Voru ráðherrarnir sammála um að möguleikar fælust í samstarfi um landbúnaðar og landgræðslumál gegnum EMBRAPA, rannsóknarstofnun brasilíska landbúnaðarins og íslenskra gagnaðila.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics