Hoppa yfir valmynd

Harkaleg gagnrýni á Ísrael

OS-65-SThÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, mótmælti harðlega því framferði Ísraelsmanna að hindra að íslenskir sjálfboðaliðar kæmust til Gaza til að setja gervifætur frá fyrirtækinu Össuri á limlesta Palestínumenn í Gaza, sem misst hafa fætur vegna átaka við Ísrael. Orð ráðherrans féllu í ræðu fyrir Íslands hönd á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York. “Þetta er ómannúðlegt, og óréttlæti,” sagði ráðherrann, og skoraði á Ísraelsmenn að láta af hindrunum sínum gegn því að neyðaraðstoð, Íslendinga og annarra, bærist nauðstöddum íbúum Gaza.

Össur sagði ekki hægt að fjalla um mannréttindi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna án þess að ræða alvarlega mannréttindabrot Ísraelsmanna gagnvart Palestínu, ekki síst íbúum Gaza. Hann sagði að nú lægi fyrir álit sérfræðinga mannréttindanefndarinnarinnar, Human Rights Council, um árás Ísraela á flota hjálparskipa á leið til Gaza í vor. Niðurstaðan væri ótvíræð. “Ísraelar brutu alþjóðalög með því að ráðast á flota með neyðaraðstoð á leið til Gaza.”

Utanríkisráðherra sagði í ræðu sinni að íslenska þjóðin hefði djúpa samúð með Palestínumönnum, ekki síst íbúum Gaza, sem sættu kúgun undir hersetu Ísraels.

Utanríkisráðherra hvatti til þess að sjálfstætt ríki Palestínu yrði að veruleika eins fljótt og auðið yrði. Íslendingar styddu friðarferlið sem nú væri aftur komið af stað, en á meðan á því stæði yrði umheimurinn að nota allar mögulegar, skynsamlegar leiðir til að styðja við málstað Palestínumanna.

Össur sagði að Íslendingar hefðu ekki hikað við að taka forystu til að verja rétt Eystrasaltsþjóðanna á sínum tíma þegar þeir hefðu fyrstir þjóða viðurkennt fullveldi þeirra. Þeir myndu heldur ekki hika við að verja rétt Palestínumanna. “Allar þjóðir eru skyldugar til að verja mannréttindi annarra þjóða,” sagði ráðherrann. “Það á ekki síst við um Gaza, þar sem mannréttindi eru brotin á hverjum einasta degi.”

Ræðu utanríkisráðherra má sjá hér:

Ræða utanríkisráðherra á 65. allsherjarþingi SÞ

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics