Hoppa yfir valmynd

Ráðherrafundur EFTA - Fríverslunarsamningur við Hong Kong

Lichtenstein-EFTA-21-June-2011
Lichtenstein-EFTA-21-June-2011

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifaði í dag undir fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Hong Kong fyrir Íslands hönd. Undirritunin fór fram á ráðherrafundi EFTA í Schaan í Liechtenstein. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur sem Hong Kong gerir við Evópuríki. Samningurinn tekur bæði til vöru- og þjónustuviðskipta. Samhliða undirritun hans var jafnframt undirritaður samningur milli einstakra EFTA-ríkja og Hong Kong um vinnuréttindi. Er þetta í fyrsta skipti sem fjallað hefur verið um réttindi launþega í tengslum við fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna.

Ráðherra lýsti stuðningi Íslands við áframhald fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Indland, Indónesíu, Svartfjallaland, Bosníu-Hersegóvínu og RuBeKa-hópinn sem er tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstans. Í máli sínu tók hann upp ástand mannréttindamála í Hvíta-Rússlandi og sagði nauðsynlegt að fjalla um það í viðræðunum sem í hönd fara við ríkin þrjú sem hafa ákveðið að koma sameiginlega fram gagnvart EFTA. Á fundinum greindi utanríkisráðherra einnig frá framvindu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið en rýnivinnu lauk í gær og formlegar samningaviðræður hefjast á mánudaginn kemur.

Ennfremur lýstu ráðherrarnir frá Sviss, Noregi, Liechtenstein og Íslandi því að EFTA-ríkin væru reiðubúin að hefja fríverslunarviðræður við Víetnam en nýleg athugun EFTA og Víetnam leiddi í ljós að gagnkvæmur ávinningur yrði að gerð slíks samnings. Ráðherrarnir lýstu einnig yfir áhuga sínum á að hefja fríverslunarviðræður við Malasíu og ákváðu að kanna frekar hvernig styrkja mætti viðskiptatengsl EFTA-ríkjanna við Mercosur-ríkin (Argentínu, Brasilíu, Úrugvæ og Paragvæ). Einnig ræddu ráðherrarnir um hvernig styrkja mætti viðskiptatengsl EFTA-ríkjanna við ríki Mið-Ameríku (Kosta Ríka, El Salvador, Gvatemala, Hondúras og Panama). Þá var ákveðið að hefja skoðun á því að auka samskiptin á sviði viðskipta við nokkur Afríkuríki að tillögu Norðmanna.

Ráðherrarnir ræddu einnig um stöðu samningaviðræðna innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og ítrekuðu mikilvægi þess fyrir alþjóðlegt efnahags- og viðskiptalíf að niðurstaða fengist í þeim viðræðum .

Þá ræddu ráðherrarnir um EES-samstarfið, skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA dómstólsins, og tvíhliða samninga Sviss við ESB.

Ráðherrarnir áttu einnig fundi með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA þar sem fram fóru skoðanaskipti um EES-samninginn og samskipti EFTA-ríkjanna við ríki utan Evrópusambandsins.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics