Hoppa yfir valmynd

Heimssýningin EXPO 2005 í Aichi, Japan

EXPO 2005
EXPO 2005

Heimssýningin EXPO-2005 fer fram í Aichi, Japan, á tímabilinu 25. mars – 25. september 2005. Meginþema hennar er “Viska náttúrunnar”. Norðurlöndin taka sameiginlega þátt í sýningunni og eru með einn sýningarskála. Þar eru löndin kynnt að mestu sem eitt svæði og megináhersla lögð á nokkra þætti sem einkenna norræn samfélög, menningu, tækni og atvinnulíf, auk umhverfismála og jákvæðrar ímyndar landanna fyrir ferðamenn.

Ísland er áberandi m.a. þar sem fjallað er um vistvæna orku, norrænar þjóðir og hafið, hönnun, lífstíl Norðurlandabúa og fjölbreytt náttúrufyrirbæri á norðurslóðum þ.m.t. norðurljós. Brugðið er upp svipmyndum úr lífi og starfi norrænna kvenna og karla á ýmsum aldursskeiðum þ. á m. segja stuttir kvikmyndakaflar frá Íslendingi á fertugsaldri Inga Jóhanni Guðmundssyni sem rekur útgerð og eru jafnframt nokkrir munir sem honum tengjast í sýningarskáp. Þrjú myndbönd sýna fjölbreytta íslenska hönnun Tinnu Gunnarsdóttur og Steinunnar Sigurðardóttur og hönnuðahóps þeirra Aðalsteins Stefánssonar, Hrafnkels Birgissonar og Sesselju Guðmundsdóttur sem gengið hefur undir heitinu “Hanna inc”.

Þjóðardagur Íslands verður haldinn hátíðlegur föstudaginn 15. júlí nk. Þá verður sérstök áhersla lögð á Ísland og íslenska menningu á heimssýningunni. Íslenskir listamenn koma þar fram og verður íslensk dagskrá allan daginn. Þeir sem kynna íslenska menningu þennan dag eru Caput tónlistarhópurinn, myndlistarmaðurinn Halldór Ásgeirsson, Kvartett Sigurðar Flosasonar ásamt Kristjönu Stefánsdóttur og popphljómsveitin Bang Gang. Þá verður flutt nýtt viðamikið verk, Bergmál, eftir Ragnhildi Gísladóttur og Sjón í samvinnu við þekktasta slagverksleikara Japans, Stomu Yamash’ta. Flytjendur auk Stomu Yamash´ta, Ragnhildar og Sjóns verða Sigtryggur Baldursson, Barnakór Biskupstungna og Skólakór Kársness, stjórnendur verða Þórunn Björnsdóttir kórstjóri og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Flytjendur dagskrárinnar í heild verða um 80 talsins.  Sumir þeirra munu einnig nýta ferðina til að koma fram annars staðar í Japan og e.t.v. fleiri Asíulöndum. 

 

Dagur hafsins er haldinn hátíðlegur í Japan hinn 18. júlí.  Þar sem hafið og nýting auðæva þess mótar á margan hátt líf og samskipti eyríkjanna Íslands og Japans verður sérstök áhersla lögð á þætti sem minna á það á þjóðardeginum

 

NorðurljósBúist er við miklum fjölda fólks á sýninguna þá sex mánuði sem hún stendur eða alls um 12 milljónum manna. Þarna er því kjörið tækifæri til að kynna Ísland sem ferðamannaland með öðrum Norðurlöndum.  Þetta gerist á heppilegum tíma þar sem fyrir nokkru hófst átak til að efla ferðalög og samgöngur milli Íslands og Japans svo og ferðatengsl við fleiri Asíulönd.  Eins og í fyrra verður á þessu ári beint leiguflug milli Japans og Íslands sem hefst síðsumars. Þess er vænst að þátttakan í heimssýningunni verði til þess að auka verulega þekkingu Japana og annarra Asíubúa á Íslandi og öðrum Norðurlöndum, sem bæði efli ferðatengsl milli landanna, styrki útflutningsmöguleika Íslendinga þangað svo og samskipti á fleiri sviðum.  Íslenskum fyrirtækjum gefst kostur á að hagnýta sér sérstaka aðstöðu í norræna sýningarskálanum til kynningarfunda og viðræðna við fulltrúa asískra fyrirtækja. Einnig eru íslenskar vörur til sölu í búð norræna skálans. Gefið hefur verið út póstkort með mynd af norðurljósum sem Friðþjófur Helgason, ljósmyndari, tók og geta gestir á sýningunni tekið sér eintak.

 

Meðal starfsmanna sýningarinnar eru þrír Íslendingar. Kristín Ingvarsdóttir er sýningarskálastjóri norræna skálans og annast sameiginlegt kynningarstarf Norðurlandanna, en einnig vinna þau Ragnar Þorvarðarson og Erna Tönsberg sem leiðsögumenn í skálanum. Þau eru öll mælt á japanska tungu.

 

Í tilefni af þátttöku Íslands í heimssýningunni hefur borgin Chiryu sem er nálægt sýningarsvæðinu gerst vinabær Íslands.  Hafa forvígismenn borgarinnar og listamenn komið hingað til lands síðan þetta var ákveðið – og í sumar verður efnt til sérstakrar Íslandskynningar þar.   

 

Utanríkisráðuneytið hefur haft forgöngu um undirbúning þátttökunnar í heimssýningunni af Íslands hálfu, ásamt Útflutningsráði Íslands sem sérstaklega hefur annast þá þætti er snúa að íslenskum fyrirtækjum.  Skipulagningu menningarkynningar á þjóðardegi Íslands er stjórnað af  menntamálaráðuneytinu. Sendiráð Íslands í Tokyo hefur einnig unnið að undirbúningnum og mun sinna sýningunni með ýmsum hætti meðan hún stendur.  Á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar er málið á sviði viðskipta- og iðnaðarráðherranna.

 

Nánari upplýsingar um norrænu þátttökuna má fá á vefsetrinu: www.nordicatexpo2005.dk, en upplýsingar um sýninguna almennt er að finna á: www.expo2005.or.jp.

 

 



 

EXPO 2005
EXPO 2005

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics