Hoppa yfir valmynd

Ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 16. nóvember 2018 um að leggja stjórnvaldssekt á kæranda að fjárhæð 2.000.000 kr. vegna óskráðrar gististarfsemi, kærð.

Stjórnsýslukæra

Með erindi, dags. 31. október 2018, bar [X] (hér eftir kærandi), fram kæru vegna ákvörðunar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir sýslumaður) frá 16. nóvember 2018 um að leggja stjórnvaldssekt á kæranda að fjárhæð 2.000.000 kr. vegna óskráðrar gististarfsemi að [Z]. Sektarheimild er að finna í 22. gr. a. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007.

Stjórnsýslukæran er byggð á 6. mgr. 22. gr. a. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests.

Kröfur

Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að fjárhæð sektarinnar verði lækkuð verulega.

Málsatvik

Þann 5. júlí 2018 barst sýslumanni ábending um óskráða heimagistingu í fasteign kæranda. Við frekari rannsókn kom í ljós að fasteign kæranda, nánar tiltekið kjallaraíbúð merkt í fasteignaskrá sem íbúðarherbergi í kjallara 07-0001, hafði verið auglýst til útleigu að minnsta kosti frá því í september 2016, með að minnsta kosti 150 umsögnum ferðamanna vegna seldrar gistiþjónustu.

Þann 19. september 2018 fór sýslumaður í vettvangsrannsókn í fasteign kæranda til að sannreyna ofangreindar upplýsingar. Rannsókn máls var talin leiða í ljós rekstur kæranda á óskráðri heimagistingu í umræddri fasteign. Meðal sönnunargagna var undirrituð upplýsingaskýrsla ferðamanna dags. 19. september 2018, en ferðamennirnir kváðust hafa leigt eignina í skammtímaleigu. Þá lágu fyrir í málinu skjáskot af umsögnum ferðamanna vegna seldrar gistiþjónustu og notandasíða kæranda þar sem nafn kæranda kemur fram.

Þann 19. september 2018 tilkynnti sýslumaður kæranda bréfleiðis um fyrirhugaða stjórnvaldssekt að upphæð 2.000.000 kr. vegna óskráðrar gististarfsemi í fasteign kæranda. Sýslumaður veitti kæranda andmælarétt í kjölfar tilkynningarinnar í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þann 7. nóvember 2018 synjaði sýslumaður umsókn kæranda um skráningu heimagistingar í ljósi þess að kærandi hafði þegar leigt fasteignina út í 90 daga, sbr. 3. gr. laga nr. 85/2007.

Með ákvörðun sýslumanns, dags. 16. nóvember 2018, var stjórnvaldssekt lögð á kæranda að fjárhæð 2.000.000 kr. vegna óskráðrar gististarfsemi í fasteign kæranda á grundvelli heimildar í 22. gr. a. laga nr. 85/2007.

Þann 31. október 2018 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra kæranda þar sem þess er krafist að ákvörðun sýslumanns frá 16. nóvember 2018, um að leggja á kæranda stjórnvaldssekt vegna óskráðrar gististarfsemi, verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi að fjárhæð sektarinnar verði lækkuð.

Þann 21. nóvember 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumanns um kæruna ásamt málsgögnum.

Þann 30. nóvember 2018 barst ráðuneytinu umsögn sýslumanns ásamt fylgigögnum.

Þann 11. janúar 2019 óskaði ráðuneytið eftir andmælum kæranda við umsögn sýslumanns og bárust andmæli kæranda ráðuneytinu þann 24. janúar 2019.

Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinum kærðu ákvörðunum.

Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið er tekið til úrskurðar.

Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun sýslumanns frá 16. nóvember 2018, um að leggja á kæranda stjórnvaldssekt vegna óskráðrar gististarfsemi, verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að fjárhæð sektarinnar verði lækkuð.

Í andmælum kæranda til sýslumanns vegna fyrirhugaðrar stjórnvaldssektar, dags. 12. október 2018, er sektarfjárhæðinni mótmælt. Kærandi bendir á að brot hans hafi aðeins falist í því að láta hjá líða að sækja um skráningu heimagistingar að [Z]. Kærandi bendir einnig á að stjórnvaldssektir samkvæmt 3. mgr. 22. gr. a laga nr. 85/2007 geti aðeins numið frá 10.000 kr. til 1.000.000 kr. fyrir hvert brot. Að mati kæranda er um stakt brot að ræða, eða í mesta lagi tvö brot, þ.e. ef rekstur fyrir almanaksárið 2018 yrði talinn stakt brot. Með vísan til þess krefst kærandi að sektin verði lækkuð niður í 10.000 kr., en til vara 20.000 kr.

Kærandi tekur auk þess fram að hann hyggist skrá heimagistingu í framhaldi kærunnar og halda áfram rekstri með löglegum hætti. 

Þá segir í andmælum kæranda frá 31. október 2018 að leiðrétt skattframtöl vegna áranna 2016 og 2017 hafi verið send ríkisskattstjóra og endurálagning hafi þegar verið greidd að fullu.

Um málsmeðferð og sjónarmið aðila vísast að öðru leyti til þess sem fram kemur í málsgögnum.

Sjónarmið sýslumanns

Sýslumaður vísar til fyrirliggjandi gagna og bendir á að fasteign kæranda hafi verið leigð í skammtímaleigu að minnsta kosti 138 sinnum frá 1. janúar 2017. Auk þess bendir sýslumaður á að uppgefið verð á bókunarsíðu kæranda hafi að lágmarki verið 180 USD (u.þ.b. 20.900 kr.) fyrir hverja nótt. Þá segir sýslumaður að ekki hafi verið hægt að bóka færri nætur en tvær með hverri bókun. Í ákvörðun sinni byggir sýslumaður á því að umrædd heimagisting hafi ekki verið skráð eftir fyrirmælum 13. gr. laga nr. 85/2007. Í því samhengi bendir sýslumaður á að skv. 13. gr. laganna sé skammtímaleiga einstaklinga skráningarskyld, án tillits til fjölda seldra gistinátta. Sýslumaður byggir m.a. á því að hver seld gistinótt án skráningar sé sjálfstætt brot í skilningi 3. mgr. 22. gr. a. laganna.

Við ákvörðun sektar segir sýslumaður að tillit hafi verið tekið til alvarleika brots. Við mat á alvarleika brots hafi verið litið til umfangs brots, fjölda sýnilegra gistinátta, áætlaðra tekna fyrir hvert sýnilegt brot og eftir atvikum mögulegra ítrekunaráhrifa vegna fyrri sekta eða aðgerða. Bendir sýslumaður á að kærandi hafi viðurkennt að hafa starfrækt skammtímaleigu í umræddri fasteign á almanaksárunum 2017 og 2018. Kærandi hafi ekki mótmælt framangreindu umfangi gististarfseminnar né lagt fram gögn sem véfengja mat sýslumanns.

Um sjónarmið sýslumanns vísast að öðru leyti til þess sem segir í ákvörðunum sýslumanns og umsögn hans.

Forsendur og niðurstaða

Skráningarskylda vegna heimagistingar var tekin upp með lögum nr. 67/2016 um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007. Markmið lagabreytingarinnar var einföldun regluverks í því skyni að auðvelda einstaklingum að starfrækja skammtímaleigu. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að veita einstaklingum heimild til að starfsrækja heimagistingu án sérstaks rekstrarleyfis, en í stað þess varð starfsemin skráningarskyld á vefsvæði sýslumanns. Breytingunum var einnig ætlað að mæta nýjum áskorunum sem fylgdu aukinni fjölgun erlendra ferðamanna, en í aðdraganda lagasetningarinnar var fjöldi óskráðra og leyfislausra gististaða ein stærsta áskorun íslenskrar gistiþjónustu.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að gildandi lögum nr. 85/2007 kemur meðal annars fram að umsækjendur um heimagistingu fari ekki í sama umsagnarferli og umsækjendur í öðrum flokkum, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Hins vegar þurfa aðilar sem starfrækja skráningarskylda heimagistingu að uppfylla kröfur um brunavarnir, til dæmis varðandi fjölda reykskynjara og annarra brunavarna, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007 segir að hver sem hyggst bjóða upp á heimagistingu í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laganna skuli tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Þá segir að aðila beri að staðfesta við skráningu að húsnæðið uppfylli kröfur í reglugerð um brunavarnir, það hafi hlotið samþykki sem íbúðarhúsnæði og að húsnæðið sé fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Samhliða einföldun regluverks sem fylgdi gildistöku breytingalaga nr. 67/2016 voru lögfestar stjórnvaldssektir vegna brota á lögunum. Var það meðal annars gert í því skyni að stemma stigu við þeim mikla fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða hér á landi, sem og að tryggja fylgni við ákvæði laganna. Í 1. mgr. 22. gr. a. laga nr. 85/2007 segir að sýslumaður geti lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur heimagistingu án skráningar skv. 13. gr. laganna. Í 3. mgr. sama ákvæðis kemur fram að stjórnvaldssektir geti numið frá 10.000 kr. til 1.000.000 kr. fyrir hvert brot og við ákvörðun sektar skuli taka tillit til alvarleika brots.

Við ákvörðun sektarfjárhæðar sbr. 4. mgr. 22. gr. a. laganna verður að horfa til umfangs á starfsemi kæranda. Að mati ráðuneytisins telst sannað að kærandi leigði út fasteign sína til heimagistingar frá 1. janúar 2017 til 16. nóvember 2018 í að minnsta kosti 138 skipti. Á bókunarsíðu kæranda var uppgefið verð að lágmarki 180 USD (u.þ.b. 20.900 kr.) fyrir hverja nótt. Þá var ekki mögulegt að leigja fasteign kæranda í minna en tvær nætur í senn.

Af málsgögnum er einnig ljóst að fasteign kæranda var aldrei skráð hjá sýslumanni á umræddu tímabili. Þar af leiðandi lá aldrei fyrir staðfesting á að brunavörnum væri fullnægt sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007. Brot kæranda verður því að teljast veruleg ógn við öryggi þess sem nýtir gistinguna. 

Hins vegar verður að líta til þess að hin óskráða gististarfsemi kæranda var starfrækt frá 1. janúar 2017 til 16. nóvember 2018, það er áður en lög nr. 83/2019, um breytingu á lögum nr. 85/2007 með síðari breytingum, tóku gildi. Með breytingalögum nr. 83/2019 var tekinn af allur vafi um að hver seld gistinótt umfram það sem heimilt er samkvæmt lögunum teldist sjálfstætt brot. Í ljósi þess telur ráðuneytið að skýra verði þennan vafa kæranda í hag. Að mati ráðuneytisins verður að líta heildstætt á starfsemi kæranda sem stakt brot í skilningi 3. mgr. 22. gr. þágildandi laga nr. 85/2007. Telst það jafnframt sjálfstætt brot á 1. mgr. 22. gr. a. laganna.

Að öllu framangreindu virtu, umfangi brots kæranda og alvarleika er hæfileg sekt metin 1.000.000 kr.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í máli þessu og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Stjórnvaldssekt sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á kæranda þann 16. nóvember 2018 er lækkuð. Stjórnvaldssekt er hæfilega ákvörðuð 1.000.000 kr.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics