Hoppa yfir valmynd

Nr. 039, 11. maí 1999 Utanríkisráðherra- og varnarmálaráðherrafundur VES í Bremen

Utanríkisráðuneytið

Fréttatilkynning

________




Nr. 039


Utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Vestur-Evrópusambandsins (VES) komu saman í Bremen, Þýskalandi, dagana 10.-11. maí 1999.
Meginviðfangsefni fundarins var samstarf um öryggis- og varnarmál í Evrópu í ljósi gildistöku Amsterdamsamningsins og niðurstaðna leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Washington. Einnig ræddu ráðherrarnir um ástandið á Balkansskaga og afmarkaða þætti í aðgerðum VES til að hafa stjórn á hættuástandi.
Í hjálagðri yfirlýsingu ráðherranna kemur m.a. fram ánægja með aukaaðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands að VES, stuðningur við stefnu Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins gagnvart Sambandslýðveldinu Júgóslavíu vegna ástandsins í Kosóvó og áhersla á mikilvægi áframhaldandi þróunar öryggis og varna Evrópu, með hliðsjón að hagsmunum allra VES ríkja.
Í ávarpi sem fastafulltrúi Íslands hjá VES, Gunnar Pálsson, flutti á fundinum í fjarveru utanríkisráðherra, var áréttuð sú ósk íslenskra stjórnvalda að í frekari þróun evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu, m.a. með hugsanlegum breytingum á stöðu VES gagnvart ESB, verði gætt að núverandi réttindum og skyldum aukaaðildarríkja VES. Í því sambandi þurfi að vera samkvæmni á milli niðurstaðna leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Washington og fyrirhugaðs leiðtogafundar ESB í Köln. Miklu skipti að þróun evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu snúist ekki einvörðungu um eflingu hernaðargetu Evrópuríkja, heldur að einnig verði leitað ásættanlegra lausna í uppbyggingu viðeigandi stofnana í tengslum við eða innan ESB, þannig að hægt verði að tryggja sem mesta þátttöku og nauðsynlegt samræmi milli samtaka sem fjalla um öryggis- og varnarmál í Evrópu.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 11. maí 1999.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics