Hoppa yfir valmynd

Rýnifundi um tollamál lokið

Rýnifundi um 29. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, tollamál, lauk í Brussel á miðvikudag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Maríanna Jónasdóttir, formaður samningahópsins.

Aðild að Evrópusambandinu (ESB) felur í sér inngöngu viðkomandi ríkis í tollabandalag ESB. Við aðild falla tollar á vörur frá aðildarlöndum sambandsins niður á Íslandi, svo og á vörum frá Íslandi til ESB. Þá tekur gildi tollskrá gagnvart þriðju ríkjum.Innganga í tollabandalagið kallar á umtalsverðar breytingar á tollframkvæmd, þróun og hönnun tölvukerfa og upptöku nýrrar og umfangsmeiri tollskrár. Þetta verkefni er umfangsmikið og tæknilega flókið.

Fjárhagsleg áhrif breytinganna koma bæði fram í breyttum tolltöxtum gagnvart þriðju ríkjum við upptöku nýrrar tollskrár og þeim áhrifum sem einstakar atvinnugreinar kunna að verða fyrir vegna þess, bæði til hækkunar og lækkunar. Einnig er rétt að hafa í huga að 75% af innheimtu tolltekna hér á landi mun renna beint til ESB en þetta hlutfall tolltekna aðildarríkja er hluti af tekjustofnum sambandsins.

Hvað tolla á innfluttar vörur varðar, eru tollar á aðföng til stóriðju í fljótu bragði meðal þess sem mestu máli skiptir þegar kemur að viðræðum við ESB. Kanna þarf möguleika á að semja um einhvers konar sérlausnir í því skyni að tryggja að fyrirtæki sem starfa hér á landi geti flutt inn aðföng og búnað án greiðslu tolla. Tollar á innfluttar landbúnaðarafurðir annars vegar og á útfluttar sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir hins vegar, eru sérstök athugunarefni sem fjallað er um í samningahópum um landbúnað og utanríkisviðskipti. Þá þarf að huga sérstaklega að sérfræðiþekkingu til að takast á við þarfagreiningu, forritun og uppsetningu nýrra tölvukerfa og innleiðingu breyttrar tollframkvæmdar.

Greinargerð um tollamál má nálgast hér:

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics