Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra fundar með erlendum ráðamönnum hjá SÞ

Utanríkisráðherrar Úkraínu og Íslands undirrita samning um afnám vegabréfaárinunar offl.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur tekið þátt í fjölda ráðstefna og funda, m.a. um þróunarsamvinnu og öryggismál, fyrstu viku allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York. Þá hefur ráðherrann átt fundi með fjölmörgum erlendum ráðamönnum, m.a. utanríkisráðherrum Norðurlandanna auk tvíhliða funda um viðskipti, jarðvarma og samstarf á alþjóðavettvangi. Þá undirritaði hann samkomulag um afnám vegabréfsáritana við Úkraínu. 

Utanríkisráðherra átti fund með utanríkisráðherra Nýja-Sjálands, Murray McCully, þar sem náið og gott samstarf ríkjanna á alþjóðavettvangi var til umræðu og þeir fjölmörgu þættir sem þessi fjarlægu ríki eiga sameiginlega s.s. jarðvarma og aðra endurnýtanlega orkugjafa, sauðfjárrækt og mjólkurvöruframleiðslu. Utanríkisráðherra átti stuttan fund með utanríkisráðherra Mongólíu, Luvsanvandangiin Bold, þar sem m.a. voru ræddir möguleikar á auknu samstarfi í jarðhita- og landgræðslu. 

Á fundi með utanríkisráðherra Singapúr, K. Shanmugam, ræddu þeir Gunnar Bragi m.a. nýlega áheyrnaraðild Singapúr að Norðurskautsráðinu, aukinn straum ferðamanna frá Singapúr til Íslands og samstarf þjóðanna á vettvangi alþjóðastofnana. Utanríkisráðherra hitti einnig utanríkisráðherra Andorru, Gilbert Saboya Sunyé, og ræddu þeir þróun mála í Mið-Austurlöndum í tengslum við almenna umræðu allsherjarþingsins.

Utanríkisráðherrar Íslands og Úkraínu, Gunnar Bragi Sveinsson og Leonid Kozhara, komu saman við formlega undirritun tvíhliða endurviðtökusamnings og samning um afnám vegabréfsáritana. Við það tækifæri ræddu ráðherrarnir einnig um jákvæð áhrif fríverslunarsamnings EFTA og Úkraínu sem tók gildi á síðasta ári, samstarf innan Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og möguleika á samstarfi á sviði jarðvarma og vistvænna orkugjafa. Úkraínski ráðherrann lét einnig í ljós dálæti sitt á Íslandi, íslenskri síld og Íslendingasögunum og kvaðst hlakka til að taka á móti utanríkisráðherra á ráðherrafundi ÖSE sem fer fram í Kíev í desember nk.

Utanríkisráðherra ávarpar allsherjarþing SÞ á morgun, mánudag, upp úr hádegi að íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með ávarpinu á vef SÞ

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics