Hoppa yfir valmynd

Kynningarfundur hjá FAO um jarðvarmanýtingu í þágu fæðuöryggis

Utanríkisráðuneytið stóð fyrir kynningu á fundi landbúnaðarnefndar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) í Róm 22. maí sl. undir yfirskriftinni „Nýting jarðvarmaorku í þágu fæðuöryggis í þróunarlöndunum“. Landbúnaðarnefndin (COAG) er ein mikilvægasta nefnd stofnunarinnar og eru fundir hennar, sem haldnir eru annað hvert ár, sóttir af fulltrúum allra aðildarríkja.

Kynningin fjallaði um þau tækifæri sem felast í jarðvarmanýtingu við framleiðslu og geymslu matvæla í þróunarlöndum. Er þetta ekki síst mikilvægt í ljósi þess, að um þriðjungur allra framleiddra matvæla í heiminum er talinn skemmast og nýtast ekki sem fæða. Í þróunarsamvinnu er nú lögð áhersla á að styrkja möguleika viðkvæmra samfélaga til að takast á við neyðarástand og hungur, og gæti nýting jarðvarmaorku styrkt þá viðleitni. Innan FAO starfar deild sem fjallar um nýja orkugjafa og þýðingu þeirra fyrir fæðuöryggi. Í undirbúningi er útgáfa rits á vegum FAO um jarðhitanýtingu í þágu matvælaframleiðslu og munu íslenskir sérfræðingur taka þátt í greinaskrifum fyrir ritið.

Fulltrúar fjölmargra þróunarríkja sóttu kynninguna ásamt sérfræðingum FAO. Af Íslands hálfu flutti Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands gagnvart FAO inngangsávarp og Benedikt Höskuldsson, sérstakur fulltrúi orkumála utanríkisráðuneytisins, flutti fyrirlestur um nýtingu jarðvarmaorku við matvælaframleiðslu og hvernig þróunarríki gætu nýtt sér reynslu Íslendinga á því sviði. Sérfræðingar FAO kynntu niðurstöður könnunarskýrslu sem unnin var í kjölfar heimsóknar þeirra til Íslands sl. vetur.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics