Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra fundar með framkvæmdastjórn ESB og fulltrúum Evrópuþingsins

OS-og-Damanaki
OS-og-Damanaki

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag og í gær fundi með þremur yfirmönnum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, auk tveggja fulltrúa Evrópuþingsins. Fundirnir voru í framhaldi ríkjaráðstefnu ESB og Íslands í Brussel, þar sem eiginlegum samningaviðræðum var hrundið úr vör með opnun fjögurra fyrstu kaflanna.

Á fundi utanríkisráðherra með Stefan Fule, stækkunarstjóra ESB, voru efnisatriði og fyrirkomulag aðildarviðræðna  Íslands við Evrópusambandið til umræðu. Utanríkisráðherra ítrekaði þann vilja Íslendinga að hefja viðræður um allt að helming samningskaflanna fyrir árslok, þ. á m. samningskafla um sjávarútveg og landbúnað.

Utanríkisráðherra fundaði með Mariu Damanaki, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þau ræddu endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB, samningaviðræðurnar framundan og stöðuna í makrílviðræðum Íslendinga, Norðmanna, Færeyja og Evrópusambandsins.

Ráðherra hitti einnig Olla Rehn sem fer með efnahags- og gjaldeyrismál í framkvæmdastjórninni. Utanríkisráðherra kynnti efnahagsáætlun Íslands og Rehn gerði grein fyrir aðgerðum ESB til að tryggja efnahagsstöðugleika á evrusvæðinu og breytingum á fjármálaregluverki ESB.

Utanríkisráðherra fundaði að lokum með þýska þingmanninum Martin Schultz, sem fer fyrir hópi jafnaðarmanna  á Evrópuþinginu. Þeir ræddu aðildarviðræðurnar og hlutverk Evrópuþingsins í þeim.  Ráðherra ræddi ennfremur við Steffen Weber, framkvæmdastjóra Norðurskautsvettvangs Evrópusambandsins og ráðgjafa Evrópuþingsins um norðurslóðir, um mögulegt samstarf  Íslands og Evrópusambandsins í málefnum norðurslóða.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics