Hoppa yfir valmynd

Fundur utanríkisráðherra með utanríkisráðherra Íra í Dyflinni

Fundur Halldórs Ásgrímssonar og Brians Cowens
Halldór Ásgrímsson og Brian Cowen

Nr. 005

FRÉTTATILKYNNINGAR

frá utanríkisráðuneytinu

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag í Dyflinni fund með starfsbróður sínum á Írlandi, Brian Cowen, en Írar fara sem kunnugt er nú með formennsku í Evrópusambandinu. Megintilgangur fundarins var því að ræða þau mál sem efst eru á baugi í Evrópusamvinnunni og stækkun EES svæðisins frá og með 1. maí næstkomandi, auk tvíhliða málefna og alþjóðlegra öryggismála.

Utanríkisráðherra tók upp ýmis mál er varða hagsmuni Íslands og innri markað Evrópska efnahagssvæðisins, m.a. ósk um aukinn kvóta á tollfrjálsan útflutning á lambakjöti og lifandi hrossum. Þá var og rætt um mikilvægi þess að Ísland og Evrópusambandið semdu samhliða um loftferðasamninga. Ennfremur lýsti ráðherra yfir áhyggjum vegna beiðni Íra og Breta um að Evrópusambandið grípi til verndaraðgerða gegn innflutningi á eldislaxi, m.a. frá Íslandi.

Ráðherrarnir ræddu ítarlega breytingarnar sem nú standa fyrir dyrum á stofnskrá ESB eða svokallaðri stjórnarskrá ESB og sagði Halldór Ásgrímsson afar mikilvægt að ESB ræddi við EFTA-ríkin um einstök atriði í því sambandi sem gætu haft bein áhrif á rekstur samningana um Evrópska Efnahagssvæðið og Schengen.

Einnig ræddu ráðherrarnir samstarf Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins á sviði öryggismála og mikilvægi þess að þróun öryggismála innan ESB mætti ekki verða til þess að veikja bandalagið eða tengsl þess yfir Atlantshafið. Loks ræddu ráðherrarnir málefni Íraks, Afganistan og ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics