Hoppa yfir valmynd

Ráðherrafundur EFTA í Vaduz

EFTA-ráðherrar, aðalframkvæmdastjóri EFTA og aðstoðarviðskiptaráðherra Kanada
EFTA-ráðherrar, aðalframkvæmdastjóri EFTA og aðstoðarviðskiptaráðherra Kanada

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sat í dag ráðherrafund Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) í Vaduz í Liechtenstein, fyrir hönd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra. Ráðherrarnir ræddu samskipti EFTA-ríkjanna, samskipti þeirra við ESB og við ýmis önnur ríki. Á fundinum var ennfremur tekin ákvörðun um ráðningu Bergdísar Ellertsdóttur, sendiherra, sem aðstoðarframkvæmdastjóra EFTA, með aðsetur í Brussel, til þriggja ára frá hausti 2007.

Á undanförnum misserum hafa EFTA-ríkin, ESB-ríkin og ýmis ríki Ameríku og Asíu lagt aukna áherslu á gerð fríverslunarsamninga. Mikilvægi þessa þáttar EFTA-samstarfsins hefur stöðugt verið að aukast. EFTA-ríkin hafa sett sér það markmið að búa viðskiptalífi í löndum sínum bestu samkeppnisskilyrði í alþjóðaviðskiptum sem völ er á.

EFTA-ríkin lýstu ánægju með góðan árangur í könnunarviðræðum milli EFTA-ríkjanna og Indlands og standa vonir til að í nánni framtíð verði hafnar fríverslunarviðræður milli ríkjanna. Þá lýstu ráðherrarnir ánægju yfir góðum árangri í fríverslunarviðræðum við Kólumbíu, Perú, og við ríki Flóabandalagsins (Barein, Kúveit, Óman, Katar, Sádí-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin). Þá standa vonir til að samningaviðræður við Tæland hefjist að nýju á þessu ári. Jafnframt var á fundinum í Vaduz undirrituð viljayfirlýsing um aukið viðskiptasamstarf við Mongólíu.

Í tengslum við fundinn áttu ráðherrarnir fund með sérstökum fulltrúa ríkisstjórnar Kanada, Ted Menzies, varaviðskiptaráðherra Kanada, þar sem fagnað var að fríverslunarviðræðum Kanada og EFTA-ríkjanna væri lokið og lýstu þeir yfir mikilvægi þess að undirrita samninginn sem fyrst. Þetta er fyrsti fríverslunarsamingur sem Kanada gerir við Evrópuríki. Hann er mjög mikilvægur fyrir Ísland sem tækifæri til að auka viðskipti við Kanada og vegna sögulegra tengsla landanna.

Ráðherrarnir lýstu áhuga á að hefja fríverslunarviðræður við Albaníu, Serbíu og Svartfjallaland og við Rússland og Úkraínu svo fljótt sem verða má eftir að aðildarviðræðum þeirra tveggja síðastefndu að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) lýkur. Ráðherrarnir lýstu áhyggjum yfir stöðu Doha-viðræðnanna en ánægju yfir góðu samstarfi EFTA-ríkjanna í viðræðunum.

Ráðherrarnir ræddu EES-samstarfið sem þeir voru sammála um að gengi vel. Vikið var sérstaklega að framkvæmd Lissabon-áætlunar ESB sem nú virðist vera að bera árangur þar sem ýmislegt bendir til þess að efnahagslíf ESB sé að taka við sér. Ljóst er þó að enn á ESB á ýmsum sviðum nokkuð í land að ná þeirri stöðu sem t.d. EFTA-ríkin hafa á ýmsum mælikvörðum sem notaðir eru til að meta stöðu ESB. Ráðherrarnir ræddu sérstaklega framtíðarstefnumótun ESB á sviði innri markaðarins sem er að vænta innan tíðar. Ráðherra tók sérstaklega upp mikilvægi sveitarfélaga í framkvæmd EES-löggjafar og lagði til að skoðað yrði innan EFTA með hvaða hætti mætti tengja þau betur við undirbúning EES-löggjafar.

Ráðherrarnir áttu einnig fundi með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA þar sem fram fóru skoðanaskipti um EFTA-samstarfið.

Yfirlýsing ráðherrafundarins er hjálögð.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics