Hoppa yfir valmynd

Ræddu hvernig auka megi viðskipti við Finnland

Mynd: Marika Ahonen.
Erkki Tuomioja og Gunnar Bragi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra heimsótti Finnland í dag þar sem hann tók þátt í viðskiptaþingi í Turku og hringborðsumræðum í Helsinki með fulltrúum viðskiptalífs beggja landa.  Þá átti hann fundi með utanríkisráðherra Finnlands, Erkki Tuomioja, og Lenita Toivakka utanríkisviðskiptaráðherra.

Um var að ræða eftirfylgni vinnu sem ráðherrarnir ákváðu að hefja fyrir ári síðan um viðskipta- og menningarmál.

Á fundi utanríkisráðherra með utanríkisviðskiptaráðherra Finnlands ræddu ráðherrarnir leiðir til auka á ný viðskipti milli landanna en þau hafa dregist verulega saman undanfarin ár. Í framhaldi af fundi þeirra var efnt til hringborðsumræðna um hvernig þessu markmiði yrði best náð.  Í umræðunum kom fram að margvíslegir möguleikar eru fyrir hendi til að efla viðskipti milli ríkjanna, t.d. með matvæli, á sviði hátækni, ferðamennsku, norðurslóða o.fl. Þátttakendur í umræðunum voru, auk ráðherranna tveggja, fulltrúar finnskra fyrirtækja, samtaka iðnaðarins og samtaka fjölskyldufyrirtækja,  Finnsk-íslenska viðskiptaráðið, Íslandsstofa ofl.

Gert er ráð fyrir að stjórnvöld beggja landa ásamt fulltrúum viðskiptalífsins fylgi umræðunum eftir á næstu mánuðum.

Gunnar Bragi, ásamt fulltrúum íslenskra fyrirtækja sat einnig viðskiptaráðstefnu í Turku um viðskipti Finnlands og Íslands sem ræðismaður Íslands og borgaryfirvöld í Turku efndu til. Í ávarpi sínu ræddi utanríkisráðherra þau tækifæri sem eru til að efla viðskipti ríkjanna, með sérstakri áherslu á sérstöðu íslenskra matvæla, ekki síst í tengslum við nýafstaðna Food & Fun hátíð í Turku þar sem Ísland var í öndvegi.

Á fundi utanríkisráðherra ríkjanna var einkum rætt um nýafstaðnar kosningar í Úkraínu, samskipti við Rússland, ástandið í Miðausturlöndum, málefni Norðurslóða og Evrópusambandið.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics