Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra fundaði með menningarráðherra Rússlands

Menningarsamningur-breytt-(Medium)
Menningarsamningur-breytt-(Medium)

Á fundi sínum í dag með menningarráðherra Rússlands, Alexander Avdeyev, undirritaði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra samkomulag landanna um aukið menningarsamstarf. Strax á næsta ári eru fyrirhugaðir viðburðir á vegum Listahátíðar í Reykjavík sem efnir til einleikstónleika í samstarfi við Hörpu með Arcadi Volodos, einum fremsta píanóleikara heims, og tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves sem hyggst efna til kynningarkvölds í Moskvu næsta vor og stefnir í framhaldinu á að fá rússneska tónlistarmenn á hátíðina.

Þá hyggjast íslensk og rússnesk stjórnvöld  fagna 70 ára stjórnmálasambandi landanna á árinu 2013 með menningardagskrá í báðum löndum. Rússar munu efna til yfirlitssýningar með verkum Jóhannesar Kjarval á þjóðlistasafningu í Pétursborg í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur, sem og sýningar í Moskvu um ferðir víkinga í austurveg. Á Íslandi stefnir Listasafn Reykjavíkur á að setja upp sýningu með Alexander Rodchenco, heimsþekktum rússneskum listamanni, í samstarfi við Moscow House of Photography  í Pétursborg. Rússar leggja einnig til að efnt verði til jakútískra menningardaga á Íslandi en sjálfstjórnarlýðveldið Jakútía er stærsta stjórnsýsluumdæmi heims og afar ríkt af náttúruauðlindum og menningu. Þá verður í tilefni af afmælinu gefin út bók með mikilvægustu skjölum um samskipti ríkjanna.

Á fundinum ræddi utanríkisráðherra m.a. áhuga Íslendinga á rússneskum bókmenntum, leikritum og kvikmyndum.  Sammæltust ráðherrarnir um að leitast við að efna til  sérstakra kvikmyndadaga í báðum löndum og að skoða tækifæri til aukins samstarfs á sviði leiklistar og bókaútgáfu.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics