Hoppa yfir valmynd

Sameiginleg fréttatilkynning sjávarútvegsráðuneytis og utanríkisráðuneytis:Ráðstefna FAO í Reykjavík 1. - 4. október 2001

FRÉTTATILKYNNING
frá sjávarútvegsráðuneytinu
og utanríkisráðuneytinu



Alþjóðleg ráðstefna um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar verður haldin í Reykjavík 1.- 4. október næstkomandi. (Reykjavik Conference on Responsible Fisheries in the Marine Ecosystem). Ráðstefnan er haldin á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í boði íslenskra og norskra stjórnvalda.

Megintilgangur ráðstefnunnar er að bæta framkvæmd á Siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum (FAO Code of Conduct for Responsible Fisheries) einkum með því að auka vistkerfisnálgun við stjórn á nýtingu á lifandi auðlindum hafsins. Stefnt er að því að yfirlýsing ráðstefnunnar feli í sér stefnumörkun á því sviði.

Yfirlýsingin verður lögð fyrir leiðtogafund FAO um fæðuöryggi síðar í haust og leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldinn verður á næsta ári í tilefni af því að tíu ár verða liðin frá Ríóráðstefnunni um umhverfi og þróun. Ráðstefnan í Reykjavík er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að þetta er eina alþjóðaráðstefnan um sjávarútvegsmál sem haldin er á vegum Sameinuðu þjóðanna fyrir leiðtogafundinn í Jóhannesarborg.

Helstu fiskveiðiþjóðir heims eiga fulltrúa á ráðstefnunni auk sjávarútvegsráðherra fjölmargra ríkja. Alls taka um 450 þátttakendur þátt í ráðstefnunni, þar af um 380 erlendir frá 85 ríkjum. Er þetta umfangsmesta alþjóðaráðstefna sem haldin hefur verið hér á landi.

Ráðstefnan verður sett í Háskólabíói næstkomandi mánudag, 1. október 2001, með ávörpum Jacques Diouf, aðalframkvæmdastjóra FAO, Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, og Otto Gregussen, sjávarútvegsráðherra Noregs. Lagt hefur verið til að Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, verði forseti ráðstefnunnar.

Meðfylgjandi er upplýsingarefni fyrir fjölmiðla sem hafa hug á því að sitja ráðstefnuna. Auk þess sem hér kemur fram eru nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar að finna á heimasíðu hennar www.refisheries2001.org, þ.m.t. útdrættir úr fyrirlestrum.

Ráðstefnan er opin fjölmiðlum. Mikilvægt er að blaða- og fréttamenn og tæknimenn fjölmiðla fylli út hjálagt skráningarblað til að tryggja aðgang að ráðstefnunni. Skráningarblaðið óskast sent á eftirfarandi tölvupóstfang: [email protected] eða á faxnúmer 585 4390.

Eftirfarandi er ennfremur meðfylgjandi til fróðleiks:

a. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar.

c. Listi yfir þátttökuríki.

d. Yfirlit yfir undirbúningsaðila ráðstefnunnar og tengiliði af Íslands hálfu.


Sjávarútvegsráðuneytið,
utanríkisráðuneytið.
Reykjavík 27. september 2001


- Skráningareyðublað fyrir blaðamenn




- landalisti.doc



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics