Hoppa yfir valmynd

Á fjórða hundrað tóku þátt í jafnréttisráðstefnu Íslands og Súrinam hjá SÞ

Ráðherrar frá Úkraínu, Súrínam, Svíþjóð og Íslandi

Á fjórða hundað tóku þátt í jafnréttisráðstefnu sem Ísland og Súrinam stóðu að í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í dag og gær. Hugmyndin að baki Rakarastofuráðstefnunni er að virkja karla í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og voru ráðamenn og baráttufólk fyrir kynjajafnrétti fengnir til að velta upp hugmyndum um hvernig ætti ná betri árangri.

Í opnunarávarpi sínu minnti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á að sem faðir fimm drengja, væri það skylda sín að ala þá upp til að vera nytsamir og ábyrgðarfullir samfélagsþegnar. „Forsenda heilbrigðs sambands karla og kvenna, hvort heldur sem vinir, vinnufélagar eða ættingjar, er að karlar geri sér grein fyrir hvað felist í því að vera karlmaður.“

Yngsti ræðumaðurinn, hinn 13 ára gamli Max Bryant, tók undir með Gunnari Braga, um ábyrgð feðra og nauðsyn þess að gera drengi meðvitaða um kynjajafnrétti.  „Ég er hérna vegna þess að mér finnst að stelpur eigi að hafa sömu möguleika og strákar. Ég vona að okkur takist að breyta hugsanahætti stráka í dag, svo að þegar ég verð fullorðinn, munum við ekki lengur þurfa á rakarastofuráðstefnu að halda.“

Á meðal annarra ræðumanna voru Jan Eliasson, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Donald McPherson, fyrrverandi atvinnumaður í bandarískum fótbolta, Gabriel Wikström, heilbrigðis- og velferðarráðherra Svíþjóðar, rapparinn Kyle “Guante” Tran Myhre, Todd Minerson, framkvæmdastjóra Hvíta borðans, sem eru baráttusamtök til að binda endi á ofbeldi gegn konum og Magnús Scheving, sem gerði sér lítið fyrir og kom inn á handahlaupum. Frú Vigdís Finnbogadóttir, ástralski hershöfðinginn David Morrison og fleiri fluttu ávörp af myndbandi. Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women, flutti lokaorð ráðstefnunnar.

Gunnar Bragi lagði áherslu á að rakarastofuráðstefnan væri framlag Íslands og Súrinam til að auka umræðu um kynjajafnrétti og að virkja karlmenn í baráttunni fyrir því. „Það hefur tekist að vekja athygli á þessu máli sem er afar ánægjulegt.  En það er ekki nóg. Við verðum að halda baráttunni áfram, vonandi hleypir þessi ráðstefna krafti í hana og verður okkur og  öðrum hvatning.“

 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics