Hoppa yfir valmynd

Twiplómasía og samfélagsmiðlar

Erlingur Erlingsson, andlitsmynd
Erlingur Erlingsson

Samfélagsmiðlabyltingin hefur ekki aðeins gjörbreytt samskiptum fólks á meðal, heldur hefur hún haft mikil áhrif á milliríkjasamskipti og samskipti stjórnvalda og almennings eftir því sem leiðtogar og stjórnsýsla átta sig á möguleikum nýrrar tækni sem býður upp á gagnkvæm samskipti en ekki einhliða miðlun. Miklar líkur eru til dæmis á því að þú sért að lesa þennan póst eftir að hafa smellt á hlekk á Facebook eða í tísti á Twitter.

Kort yfir best tengdu leiðtoga heims á Twitter

Almannatengslafyrirtækið Burson-Marsteller gerði könnun á Twitter notkun leiðtoga ríkja og má sjá kort yfir tengslanet þeirra 25 best tengdu á samskiptamiðlinum  (þ.á m. Ísland) á kortinu hér að ofan. Twitter notkun leiðtoga hefur gefið þeim ný tækifæri til þess að veita almenningi innsýn í störf sín og jafnframt opnað nýja leið til þess að dreifa upplýsingum, stefnu og skoðunum með hætti sem skapar víðtæka umræðu sem takmarkast ekki af landamærum eða innmúruðum vefsíðum einstakra fjölmiðla.

Utanríkisráðuneytið hefur í vaxandi mæli tileiknað sér samfélagsmiðla í því skyni að veita innsýn í starfsemina og opna á umræðu um alþjóðamál. Mikil tækifæri liggja á þessu sviði en helst hefur Facebook verið notað til þessa. Það samfélag er gott svo langt sem það nær, en Twitter býður upp á miklu víðari skírskotun þar sem samskipti þar eru efnisflokkuð en að öðru leyti galopin ólíkt Facebook þar sem samskipti einskorðast við „vini“ eða fylgjendur hvers notanda. Twitter hefur enn ekki náð víðtækri notkun á Íslandi, en merki eru um að það kunni að vera að breytast. Instagram, Flickr, Youtube, Tumblr og aðrir samfélagsmiðlar bjóða einnig upp á mikla möguleika fyrir stjórnsýsluna.

Ég hef tekið þátt í ráðstefnum um samfélagsmiðla m.a. á vegum Bandaríkjahers og nú síðast á vegum UN Foundation þar sem rætt var um nútíð og framtíð milliríkjasamskipta og samfélagsmiðla. Fulltrúar félagasamtaka, sendiráða, bandarískra stjórnvalda, fjölmiðla og fyrirtækja á borð við Microsoft komu saman til þess að velta fyrir sér möguleikum tækninnar og til þess að læra hvorir af öðrum. Samfélagsmiðlavirkni þessa viðburðar er gott dæmi um hvernig staðbundin ráðstefna getur náð til mjög breiðs hóps áheyrenda og þátttakenda. Í tengslum við hana mældust 317 þúsund tíst og 415 þúsund Twitter samskipti, eða um 10 tíst á mínútu. Twitter notendur um allan heim, m.a. í Bretlandi, Ástralíu, Nígeríu, Albaníu, Tyrklandi, Armeníu og Mexíkó tóku þátt í umræðunni, sendu inn spurningar og horfðu á vefútsendingu. Skipuleggjendur tóku saman helstu niðurstöður umræðunnar og fram kom með skýrum hætti að þessi samskiptamáti stjórnvalda og almennings er enn í hraðri mótun.

Utanríkisráðuneytið, ráðherra og sendiráð hafa eins og áður sagði verið að feta sig inn í þessa nýju veröld og er nú svo komið að flest sendiráð nýta Facebook til þess að miðla upplýsingum um starfsemina bæði til Íslendinga og til gistilandsins í kynningarskyni, m.a. í tengslum við menningarviðburði. Eins hefur ráðuneytið veitt innsýn í starfsemi utanríkisþjónustunnar á Instagram og hluti sendiráða nýtir Twitter. Samskiptin eru þó eins og áður sagði í eðli sínu gagnkvæm og því er þátttaka almennings lykill að því að þau blómstri. Utanríkisþjónustunni má líkja við brú milli Íslands og annarra ríkja, sérstaklega á sviði stjórnsýslu og opinberra samskipta, og því liggja mörg tækifæri í því að nýta þessa nýju miðla til þess að tengja Ísland, íslenska menningu, fyrirtæki og þjóð við erlend samfélög og markaði.

#unselfie

Mynd frá ráðstefnunni sem Erlingur sótti











Hér má finna utanríkisráðuneytið á samfélagsmiðlum


Erlingur Erlingsson er sendiráðunautur í Washington




Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics