Hoppa yfir valmynd

Fundur Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með Igor Ivanov utanríkisráðherra Rússlands

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 107


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Igor Ivanov, utanríkisráherra Rússlands. Ræddu ráðherrarnir annars vegar tvíhliða samskipti ríkjanna og hins vegar alþjóðamál með áherslu á baráttuna gegn hryðjuverkum, þróun mála í Afganistan, samskipti NATO og Rússlands, fækkun langdrægra eldflauga og eldflaugavarnir.

Ráðherrarnir voru sammála um að tvíhliða samskipti ríkjanna væru í afar góðum farvegi. Viðræður utanríkisráðherra Íslands við aðra ráðherra og ráðamenn Rússlands í gær sýndu að samstarf ríkjanna væri mikið og vaxandi. Utanríkisráðherra Rússlands sagðist vera upplýstur um efni þeirra funda og voru ráðherrarnir sammála um að ekki væri ástæða til að fara aftur yfir þau mál aftur nú. Þá skýrði utanríkisráðherra Rússlands frá því að staðfesting tvísköttunarsamnings ríkjanna væri á forgangslista yfir alþjóðasamninga sem væru til umfjöllunar í rússneska þinginu.

Igor Ivanov upplýsti ráðherra um viðræður hans í Washington dagana á undan. Undirstrikuðu ráðherranir þá breiðu samstöðu sem ríkir á alþjóðavettvangi um nauðsyn aðgerða gegn hryðjuverkum og voru þeir sammála um að ríki heims þyrftu að leggjast á eitt um viðhalda henni. Til að uppræta hryðjuverk þyrfti samstöðu ríkja um viðvarandi aðgerðir. Áréttuðu þeir það lykilhlutverk sem Sameinuðu þjóðirnir þyrftu að gegna. Í ljósi þess lagði Halldór Ásgrímsson áherslu á mikilvægi þess að að flýta nauðsynlegri endurskoðun á starfsháttum og samsetningu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þá greindi hann ennfremur frá framboði Íslands til setu í Öryggisráðinu fyrir tímabilið 2009-2010. Igor Ivanov lýsti því yfir að Ísland ætti stuðning Rússlands vísan þegar þar að kæmi.




Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 3. nóvember 2001.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics