Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra fordæmir harðlega voðaverkin í Sýrlandi

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna kom saman í gær
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna kom saman í gær

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fordæmir harðlega voðaverk sýrlenskra stjórnvalda sem og vopnaðra sveita á þeirra ábyrgð en lítill vafi leikur á að þau hafi gerst sek um skipulögð og kerfisbundin mannréttindabrot undanfarnar vikur og mánuði. Ráðherra fordæmir sérstaklega fjöldamorð í bænum Houla í vesturhluta Sýrlands í síðustu viku og leggur áherslu á að draga þurfi til ábyrgðar alla þá sem stóðu fyrir þeim.

Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst því yfir að flest fórnarlamba voðaverkanna í Houla í síðustu viku hafi verið tekin af lífi á hrottafenginn hátt. Af 108 sem þar féllu voru 49 börn. Vitni hafa lýst því að illvirkjarnir hafi verið liðsmenn vopnaðra sveita sem hliðhollar eru ríkisstjórn Bashars Assads forseta. Fleiri fregnir hafa borist í þessari viku af aftökum og tekur ráðherra undir þau orð mannréttindafulltrúa SÞ, Navi Pillay, sem sagði á sérstökum fundi Mannréttindaráðs SÞ í Genf í gær að lýsingar á voðaverkunum bentu til þess að um glæpi gegn mannkyni kunni að hafa verið að ræða. 

Í ljósi atburðanna og þróunarinnar í Sýrlandi síðustu misseri ítrekar utanríkisráðherra kröfur frá í ágúst á síðasta ári að Bashar al Assad forseti Sýrlands víki úr embætti. 

Í sérstakri umræðu um ódæðisverkin í Sýrlandi sem fram fór á vegum Mannréttindaráðs SÞ í Genf í gær átti Ísland aðild að sameiginlegri ræðu Norðurlandanna þar sem nýleg voðaverk voru fordæmd harðlega og allri ábyrgð á öryggi borgara Sýrlands lýst á hendur sýrlenskum stjórnvöldum. Var einnig lögð áhersla á að senda þyrfti sýrlenskum ráðamönnum skýr skilaboð um að þeim beri tafarlaust að stöðva ofbeldið í landinu.

Ísland var jafnframt meðflutningsaðili að ályktun á fundinum í Genf þar sem voðaverk sýrlenskra stjórnvalda voru harðlega fordæmd. Voru sýrlensk stjórnvöld þar enn og aftur hvött til að sýna stofnunum SÞ samvinnufýsi. Jafnframt var rannsóknarnefnd Mannréttindaráðsins um málefni Sýrlands falið að rannsaka atburðina í Houla, hafa uppi á þeim sem bera ábyrgð á þeim og láta þá standa reikningsskil gerða sinna.

Utanríkisráðherra lýsir yfir stuðningi við störf Kofis Annan, sérlegs sendimanns SÞ og Arababandalagsins, og eftirlitssveita SÞ, sem verið hafa á vettvangi í Sýrlandi sl. mánuð. Ljóst er þó að meira þarf til svo stöðva megi hildarleikinn í landinu. Þar þarf alþjóðasamfélagið allt að leggja lóð á vogarskálarnar.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics