Hoppa yfir valmynd

Yfirlitsræða á 25. flokksþingi Framsóknarflokksins

25. flokksþing Framsóknarflokksins á Hótel Sögu, 20. nóvember 1998

Yfirlitsræða
formanns Framsóknarflokksins
Halldórs Ásgrímssonar


Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til 25. flokksþings Framsóknarflokksins.
Á flokksþinginu metum við árangur stefnu okkar og starfa, ræðum brýnustu viðfangsefni þjóðfélagsins á líðandi stund og mörkum stefnu flokksins fram á 21. öldina. Umfram allt erum við hér saman komin til þess að leiða hugann að framtíðinni, taka mið og stefnu fram á veginn.

Á þröskuldi nýrrar aldar
Við stöndum brátt á þröskuldi nýrrar aldar og nýs árþúsunds. Þegar við horfum um öxl og minnumst hins liðna, getum við rifjað upp öll átökin og alla þá fórnfýsi sem liðnar kynslóðir sýndu til að fleyta þjóðinni fram til þeirrar velmegunar sem flestir Íslendingar njóta nú á dögum.
Samkvæmt úttekt Sameinuðu Þjóðanna er Ísland í fimmta sæti af öllum þjóðum heims hvað lífsgæði snertir og er í þeirri könnun tekið tillit til flestra þátta samfélagsins, menntunar, heilsugæslu, umhverfis og annarra gæða. Líklegt er að Íslendingar séu að fikra sig enn ofar í þessum stiga því að þessi alþjóðlega könnun tók ekki til allra síðustu ára, en þau hafa verið okkur mjög hagstæð um flest.
Íslendingar hafa við upphaf nýrrar aldar betri tækifæri en flestar aðrar þjóðir til að tryggja velferð sína og velmegun til frambúðar, ef við höfum til þess metnað, kjark og samstöðu. Og vaxandi velmegun og traustur fjárhagur ríkissjóðs gerir okkur nú kleift að gera betur en áður við þau sem við andstreymi búa og ekki hafa færi á að sækja sjálf sinn hlut.
Meðal þess sem við tókum í arf frá liðnum kynslóðum er metnaðurinn til að sækja fram, metnaðurinn til að mannast á heimsins hátt og sætta sig ekki við hálfnað verk. Á erfiðustu árum Íslandssögunnar sóttu formæður okkar og forfeður styrk, drengskap og metnað í sagnaarfinn, höfuðdjásn íslenskrar menningar. Sögurnar urðu aflvaki til nýrrar framsóknar, meðal annars af því að menn fundu metnaðinn kvikna með sér til að gera betur og rísa úr öskustónni.

Aldamótamenn
Fyrir einni öld var hér uppi kynslóð sem kölluð var aldamótamenn. Margir þeirra skipuðu sér í hóp stofnenda Framsóknarflokksins. Fullveldiskynslóðin, kreppukynslóðin, stríðsárakynslóðin og lýðveldiskynslóðin, - tóku síðan við keflinu hver af annarri og héldu framsókn þjóðarinnar áfram. Nú er það okkar hlutverk að ávaxta arfinn.
Aldamótamennirnir voru metnaðarfullir og þeir voru stoltir af því að vera Íslendingar. Þegar þeir lituðust um í landinu sáu þeir alls staðar þörfina fyrir framtak og athafnir. Eins og fyrri kynslóðir fundu þeir metnaðinn kvikna með sér, til að sækja fram, til að mannast, og til að halda til jafns við aðrar þjóðir eða svo langt sem komist yrði. Ásetningur þeirra og einlægur vilji til að búa komandi kynslóðum jafngott hlutskipti og best gerist með öðrum þjóðum varð kveikjan að framförum aldarinnar.
Þegar við göngum nú til móts við nýja öld og nýtt árþúsund í kristinni sögu ber okkur einnig að efla metnað með þjóðinni. Við getum verið stolt þjóð vegna þess að okkur hefur tekist vel til um margt, og eftir mikil stjórnmálaátök fyrr á öldinni ríkir nú góð samstaða um flest meginmál með þjóðinni. Framfarir hafa verið stórstígar. Jöfnuður er meiri en víðast annars staðar. Við höfum lagt drjúgan skerf til menningar, fræða og lista, og sambúð okkar við land, haf og auðlindir er að ýmsu leyti farsælli en hjá flestum þjóðum öðrum. Og við tökum einnig virkan og vaxandi þátt í alþjóðlegu samstarfi.
Til að standast nýjar og síbreytilegar aðstæður eigum við að stíga fram á nýja öld af kjarki og sjálfsöryggi. Við eigum ekki að láta stjórnast af framandi vindum eða hrekjast viljalítil fyrir ólíkum straumum, heldur taka fullan þátt í framvindu og framþróun.

Brýnt erindi og boðskapur
Nú er okkur boðið að verða nýir aldamótamenn, leiðsögumenn næstu kynslóðar inn í nýtt árþúsund. Erindi okkar við alla íslensku þjóðina er því brýnt. Erindi okkar er að efla þjóðina til nýrrar sóknar að bættu mannlífi, aukinni velferð og að því að vinna okkur verðugan sess í samstarfi þjóða heims.
Boðskapur okkar í komandi kosningum mun mótast af þessum hugsjónum. Í síðustu kosningum lögðum við áherslu á kjörorðið "fólk í fyrirrúmi" og það verður áfram meginstef Framsóknarmanna. Við lögðum á það áherslu í stjórnarsamstarfinu. Við höfum staðið við nær öll markmið okkar og fyrirheit. Við setjum fólk í fyrirrúm sem fyrr. Nú köllum við hina nýju aldamótamenn til liðs við okkur til að sækja fram á miðjunni inn í nýja öld frelsis og framfara.
Framfarir á öldinni sem er að líða hafa verið órjúfanlega tengdar auknum möguleikum til að vinna og nýta auðlindir okkar. Þjóðin á ekki fjölbreytilegar auðlindir sem geta staðið undir búsetu hér við ystu höf. Það sem máli skiptir eru fiskistofnar í hafinu, orka í fallvötnum og úr iðrum jarðar, fegurð landsins ásamt dug, menntun og atgervi þjóðarinnar sjálfrar.
Nýting auðlinda er alger forsenda velmegunar í landinu. Það er ekki drengilegt eða skynsamlegt að halda öðru fram eða reyna að telja þjóðinni trú um annað. Hitt er jafnaugljóst að umgengnin við land og haf verður að vera með þeim hætti að ekki sé of nærri gengið, að ekki sé höggvið að rótunum. Sátt verður að takast með atvinnulífi og umhverfisvernd, og slíka sátt má finna séu málin skoðuð af sanngirni og raunsæi.

Samofin örlög
Örlög alls mannkyns eru samofin. Við getum ekki lengur talað um utanríkismál eða alþjóðamál annars vegar og hins vegar innanlandsmál eða þjóðmál sem andstæður. Hagvöxtur íslenska þjóðfélagsins ræðst að miklu leyti á erlendri grund. Verð á afurðum okkar, þar á meðal sjávarafurðunum, er háð afkomu þjóða sem við getum engu ráðið um. Sama á við um verð á iðnaðarvöru, og efnahagur annarra þjóða ræður vitanlega miklu um aðstreymi erlendra ferðamanna hingað, svo að nokkur dæmi séu nefnd.
Við verðum að spyrja okkur margra spurninga þegar við tökum stefnuna. – Hvar má betur gera, og hverju þarf að breyta til að bæta líf og hag fólksins í landinu? Hvernig getum við lagt okkar skerf af mörkum til að núverandi og komandi kynslóðir geti lifað hamingjuríku lífi í landinu? Og hvernig skilum við okkar hlut í alþjóðlegu samstarfi þannig að boðlegt sé fullvalda og velmegandi þjóð?
Alltaf hefur verið sagt að aldamótakynslóðin beri mikla ábyrgð. Við aldahvörf er sagt að hugsjónir kvikni og hugsjónaeldurinn brenni heitast. Þegar 20. öldin gekk í garð voru Íslendingar til sjávar og sveita fullir bjartsýni og trúðu á landið og fólkið. Menn trúðu því að hægt yrði að lyfta hér Grettistaki. Skáldin túlkuðu þessar háleitu hugsjónir. Þessar hugsjónir hafa ræst í öllum aðalatriðum.
Það flokksþing sem nú er að hefjast er síðasta flokksþing Framsóknarmanna áður en aldamótin renna upp. Það er hlutverk okkar nú að móta stefnuna til nýrrar aldar og varða upphaf þeirrar vegferðar.
Það sem skiptir einna mestu í þessu starfi er að átta sig vel á því umhverfi sem við lifum og hrærumst í, og að reyna að sjá fyrir hvernig það kann að breytast á næstu áratugum.

Samvinna þegna og þjóða
Við upphaf 20. aldarinnar sáu formæður okkar og forfeður mikla möguleika opnast í aukinni samvinnu landsmanna. Samvinnuhreyfingin varð eitt af þeim verkfærum sem menn nýttu í framsókn allrar þjóðarinnar.
Samvinnuhugtakið hefur ekki breyst og það lifir í grundvallarstefnu Framsóknarflokksins. Það á enn brýnt erindi til þjóðarinnar. En samvinnan tekur mið af aðstæðum á hverjum tíma. Viðskiptaumhverfið og alþjóðavæðingin hafa haft áhrif á samvinnustefnuna og á samvinnu fólksins. Áður takmörkuðu menn samvinnuna að mestu við einstök byggðarlög og héruð. Nú hafa héraðamörkin breyst og sum horfið. Nú verðum við einnig að líta til eðlilegrar og lífsnauðsynlegrar samvinnu þjóða heims. Vegalengdir hafa fengið nýja merkingu því að nú tekur skemmri tíma að skreppa milli meginlanda en áður tók að fara milli héraða á Íslandi.
Heimurinn er stöðugt að færast meira saman. Vegna þess komumst við ekki undan alþjóðlegum vandamálum á svipaðan hátt og var í fábreytni og einangrun þjóðfélagsins eins og hún var í upphafi þeirrar aldar sem nú er senn á enda.
Við lítum á æ fleiri gæði og gildi sem sameiginleg öllu mannkyni, ekki aðeins með frændþjóðum heldur öllum heimsálfum. Mannréttindi verða til dæmis ekki skilgreind fyrir eina einstaka þjóð eða fáar þjóðir. Það er ábyrgð okkar og skylda að berjast gegn því að þau verði fótum troðin í öðrum löndum. Í þessum málum, eins og á fleiri sviðum, birtist sameiginleg ábyrgð alls mannkyns. Við erum og eigum að vera systkin. Við verðum að sýna hug okkar í verki með hjálp við þjáða og þá sem lifa við skort. Ég hef sem utanríkisráðherra beitt mér fyrir aukinni þróunaraðstoð og hefur hún aldrei áður verið meiri. Öllum má þó ljóst vera að enn hafa Íslendingar ekki nóg að gert.
Mengunin sem eyðileggur loft, haf, neysluvatn og jarðveg er ekki málefni einstakra þjóða, heldur sameiginlegt vandamál allra manna í senn. Hömlulaus rányrkja á auðlindum jarðar og heimshafa, í skógum, á málmum, olíu og öðrum auðlindum er ekki einkamál þeirra sem hafa yfir þeim að ráða. Nýting þeirra varðar framtíð alls mannkyns.
Íslendingar hafa lagt á það áherslu að virða þessi grundvallarsjónarmið í stjórnun fiskveiða, enda liggur fyrir að vernd og efling fiskistofna hefur verið mikilvægt viðfangsefni um langt árabil. Einnig mætti minna á þá staðreynd að meðan héðan voru stundaðar hvalveiðar voru þær jafnan háðar leyfum sem byggðust á mati vísindamanna.
Vísindi og þekking verða á næstu öld mikilvægari grundvöllur pólitískra ákvarðana en nokkru sinni fyrr.

Ábyrgur markaður
Frjáls verslun og hömlulítil samkeppni einkenna samfélag nútímans. Heimsvæðing viðskipta veldur því með öðru að samkeppnin verður miklu harðari en áður, sem gerir miklar kröfur til atvinnulífs okkar og annarra þjóða.
Við verðum að líta lengra en á frjáls viðskipti og samkeppni ein saman. Frelsið má ekki verða alræði þess sterka. Samkeppnin má ekki leiða til þess ójafnvægis sem eykur atvinnuleysi, mismunun, fátækt og jafnvel niðurlægingu sumra.
Reynsla þjóðanna sýnir að frjáls markaður hefur yfirburði og atvinnufrelsi er farsælast. En markaðurinn er ekki einhvers konar höfuðskepna einn og sér, heldur er hann mikill fjöldi einstaklinga og hópa í flóknum samleik. Samkeppnismarkaðurinn verður að vera ábyrgur og virða mannúðleg sjónarmið. Frjáls markaður án leikreglna verður óskapnaður.
Enn og aftur vil ég minna á að til þess að markaður og samkeppni skili þjóðinni ríkulegum ávöxtum verðum við að standa að málum af heilbrigðum og þjóðlegum metnaði og setja í öllu fólkið í fyrirrúm, manngildi ofar auðgildi

Viðfangsefnin framundan
Hver verða mikilvægustu viðfangsefni stjórnmálanna í upphafi nýrrar aldar ? Hver eru þau nýju viðfangsefni sem eru að koma upp á sjóndeildarhringinn ?
Við stöndum á traustum grunni. Framsóknarflokkurinn hefur tekið þátt í nær öllum helstu framfaramálum síðustu áratuga og verið leiðandi afl í mörgum þeirra. Meginstefna flokksins hefur staðist og erindi flokksins er enn mjög brýnt. Við höfum enn mikið verk að vinna að kalla fólkið til samferðar með okkur á miðju stjórnmálanna.
Okkur ber að varðveita það sem við eigum og höfum áunnið.
Okkur ber að sækja áfram til frelsis og samvinnu.
Okkur ber að nýta auðlindir lands og hafs og þjóðar með réttum og ábyrgum hætti.
Okkur ber að lifa í sátt við land og haf og í samlyndi manna á meðal.
Okkur ber að treysta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, og auka virka og mynduga þátttöku okkar á þeim vettvangi.
Og okkur ber að gera sérhverjum Íslendingi kleift að taka þátt í mótun og uppbyggingu samfélagsins sem frjáls maður í þjóðfélagi jafnréttis, menningar og mannréttinda.

Menntunin og upplýsingasamfélagið
Upplýsingabyltingin mun setja svip á þjóðfélag morgundagsins og þróun þekkingarsamfélagsins kemur til með að móta efnahag og samkeppnisstöðu þjóðanna. Þekking og virkjun þekkingar skiptir vaxandi máli. Á þessum sviðum verða Íslendingar að setja sér það takmark að verða í fremstu röð og jafnframt gefa í tæka tíð vandlega gaum að þeim vandamálum sem upplýsingabyltingunni eru samfara.
Framsóknarflokkurinn hefur tekið nýjustu upplýsingatækni í sína þjónustu. Undirbúningur málefna flokksþingsins hefur verið öllum aðgengilegur að undanförnu og hægt er að fylgjast með störfum okkar um allan heim á vefsíðu flokksins.
Upplýsingasamfélagið gerir nýjar kröfur til þeirra sem forystustörfum gegna um stefnumótun og framtíðarviðhorf. Íslendingar verða að taka áskorun upplýsingasamfélagsins af fullri alvöru. Þjóð eins og Íslendingar verður að leggja verulega áherslu á rannsóknir, vísindastörf og nýsköpun því að sóst er eftir mannlegu atgervi úr öllum áttum. Þetta leggur okkur nýjar skyldur á herðar í fræðslu- og menntamálum. Þau verða í öndvegi í samfélagsþróuninni á komandi tímum.

Auðlindir og umhverfisvernd
Framsóknarmenn hafa ævinlega haldið því fram að samhengi sé á milli æskilegrar nýtingar auðlinda og skynsamlegrar náttúruverndar. Græn viðhorf eru Framsóknarviðhorf. Þennan arf viljum við vernda og virða. En búseta í landinu og batnandi hagur alþýðunnar byggist á skynsamlegri nýtingu auðlindanna. Þessi sameiginlegu sjónarmið, þessi heildarsýn, á að ráða ferðinni í orkumálum og iðnþróun. Áherslu verður að leggja á þarfir fólksins fyrir traustar undirstöður fjölbreytilegs atvinnulífs í öllum landshlutum, og jafnframt á þarfirnar fyrir vandaða umgengni við landið sjálft og fegurð þess.
Hér er ekki um andstæður að ræða. Atvinnuuppbygging, umhverfisvernd, vísindi, tækni, verslun og fjármagn eru ekki andstæður heldur óhjákvæmileg heild. Það er hlutverk og skylda Framsóknarmanna að ítreka samhengið í þessum efnum, eðlilegt og farsælt jafnvægi. Hagvöxtur og fjárfesting annars vegar og umhverfisvernd hins vegar eru ekki andstæðingar, árásarlið og varnarlið. Ábyrgir stjórnmálamenn verða að sýna fram á að veruleikinn er ekki svo einfaldur og grófur. Við verðum að ná sátt milli sjónarmiða, sátt sem tryggir framfaraöld þar sem þekkingin og vísindin eru í öndvegi. Sátt verður að nást um áætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðhita þar sem sérstaklega verði fjallað um verndargildi einstakra virkjanasvæða. Könnuð verði misstór virkjanaáform og þess gætt að þau séu í samræmi við samhæfða stefnu í orku-, iðnaðar-, umhverfis- og atvinnumálum.
Um þessar mundir er mikið rætt á alþjóðavettvangi um hættulegar loftslagsbreytingar og merkur fundur var haldinn um málið í Kyoto í Japan. Íslendingar hafa sérstaka hagsmuni í þessum málum, sérstöðu sem því miður virðist ekki öllum ljós. Við erum ekki í hópi milljónaþjóða með þungan mengunariðnað. Iðnþróun, sem þætti smávægileg erlendis, getur skipt sköpum hér. Íslendingar eiga að standa saman um hófsamar og raunsæjar kröfur um að aðstaða okkar og sérstaða hljóti viðurkenningu umheimsins. Meginkrafan er að fá leyfi til að leggja hreinar orkulindir Íslands af mörkum í baráttunni gegn sívaxandi mengun. Ef við gerðum það ekki værum við að bregðast skyldum okkar, bæði gagnvart þjóðinni og hinu alþjóðlega samfélagi.

Nýting auðlinda hafsins
Það þarf engan að undra að umræðan um nýtingu auðlinda hafsins er mikil að vöxtum. Íslendingar eru umfram allt háðir skynsamlegri nýtingu þeirra og við komumst ekki hjá því að takmarka hana og berjast gegn rányrkju og sóun. Efnahagsleg velferð okkar er komin undir því að vel takist til.
Við Framsóknarmenn höfum verið í forystu fyrir því að koma á skynsamlegri nýtingu fiskistofna. Við, eins og flestir aðrir, höfum sannfærst um að aflamarkskerfið skapi mesta auðlegð og stuðli því að mestri velmegun þjóðfélagsins. Við höfum að sjálfsögðu rekið okkur á að það blasa við mörg vandamál á þeirri leið og það er viðfangsefni sem við þurfum að takast á við í framtíðinni. Við höfum ákveðið, ásamt öðrum flokkum, að vinna að þróun fiskveiðistjórnarkerfisins og nýtingar auðlindanna í svokallaðri auðlindanefnd. Þar viljum við vinna að sáttargerð um þessi mikilvægu mál og við erum óhræddir við að standa að nauðsynlegum breytingum ef það getur stuðlað að meiri sátt og betri nýtingu.
Svo virðist sem almenn sátt sé um aflamarkskerfið, en ágreiningurinn birtist fyrst og fremst í því, hve mikið þeir sem hafa nýtingarréttinn skuli greiða í sameiginlega sjóði landsmanna. Aðalatriðið er að reka heilbrigðan sjávarútveg sem getur tekist á við þær takmarkanir sem fylgja eflingu fiskistofna og getur staðið undir góðum kjörum þjóðarinnar. Sjávarútvegurinn þarf að geta staðið undir framförum byggðanna og jafnframt staðið fyrir framförum á sviði tækni og vísinda. Við þurfum sjávarútveg sem getur verið fordæmi annarra þjóða og getur jafnframt miðlað af reynslu sinni og þekkingu til þeirra sem skemmra eru komnir og eru að berjast við vandamál rányrkju og óheftrar sóknar.
Það er enginn ágreiningur um að sjávarútveginum ber að greiða fyrir þá þjónustu sem hann fær frá samfélaginu. Það er enginn ágreiningur um að honum ber að greiða skatta og skyldur. Og nú stendur hann jafnfætis öðrum atvinnugreinum, en það gerði hann ekki áður. Að mínu mati þurfum við fyrst og fremst að beina athyglinni að þeim arði sem við njótum síðar þegar við höfum byggt fiskistofnana enn betur upp. Ég sagði í ræðu á flokksþingi fyrir tveimur árum að það kæmi til álita að taka hluta af auknum veiðiheimildum og selja þær á þeim sama markaði og útvegsmenn versla á. Auðvitað kemur líka til greina að úthluta einhverjum hluta af auknum aflaheimildum í framtíðinni með öðrum hætti en nú er, en við megum aldrei fórna þeim árangri sem við höfum náð og rústa grundvöll byggðanna úti um allt land.
Það var aldrei hugsunin með nýju fiskveiðistjórnarkerfi að skapa ómældan arð fyrir fáa útvalda. Hugsunin var að skapa arð fyrir þjóðfélagið í heild og á þeirri sömu hugsun eigum við enn að byggja. Þau fyrirtæki sem eru í sjávarútvegi verða hins vegar að hafa starfsfrið og geta treyst á stöðugleika og stefnufestu. Í Framsóknarflokknum, eins og annars staðar, mætast ólík sjónarmið og ólíkir hagsmunir, en í þessu máli eins og öðrum ber okkur að hafa hagsmuni byggðanna, hagsmuni heildarinnar, að leiðarljósi.

Velferðarmálin og lífeyriskerfið
Íslendingar búa við meiri almenna efnalega velferð og betri heilsugæslu og menntakerfi en flestar aðrar þjóðir. Víða um lönd er velferðarkerfið að hruni komið og í mörgum löndum, meðal annars nágrannalöndum okkar, hafa menn neyðst til að skera verulega niður framlög og stuðning, vegna þess að kostnaðurinn reyndist miklu meiri en unnt var að rísa undir.
Stöðugur halli ríkissjóðs árum saman stefndi íslenska heilbrigðis- og velferðarkerfinu í voða. Nú hefur ríkisstjórninni tekist að snúa þeirri óheillaþróun við. Nú hefur tekist að treysta fjárhagslegan grunn kerfisins á ný. Hægt er að fullyrða að í framtíðinni verður enn betur en áður hægt að tryggja hag þeirra sem þangað þurfa að sækja styrk og hjálp.
Stöðugt eru gerðar meiri kröfur til velferðarkerfisins og allar líkur eru á að þarfir okkar haldi áfram að aukast um langa framtíð. Við erum ung þjóð miðað við það sem gerist í Evrópu. Þetta á eftir að breytast og eldra fólki fjölgar að tiltölu, en þannig vaxa kröfurnar enn sem gerðar verða til sameiginlegra sjóða. Okkur ber skylda til að þær kynslóðir sem hafa skilað þjóðinni drjúgu dagsverki geti átt áhyggjulaust ævikvöld. Umbætur í lífeyrissjóðakerfi landsmanna skipta miklu máli í þessu samhengi. Á því sviði hafa orðið tímamót með gildistöku nýrra laga.
En við verðum enn að efla og bæta lífeyriskerfið. Markmiðið verður að vera að lífeyrissjóðirnir leysi almannatryggingakerfið að mestu leyti af hólmi. Þannig geta lífeyrissjóðirnir, þetta kröftuga fjármálaafl almennings, skapað svigrúm til að almannavaldið geti sinnt heilbrigðismálum og menntamálum betur en nú er. Lífeyrissjóðirnir geta ekki sinnt að fullu þörfum öryrkja og fatlaðra, en efling þeirra getur skapað svigrúm til að gera betur. Þetta er mikilvægt verkefni sem krefst mikillar athygli og umhugsunar á næstu árum. Það er nauðsynlegt að forráðamenn lífeyrissjóðanna fari að huga mjög alvarlega að þessu meginverkefni því að það þolir ekki langa bið. Við höfum í þessari ríkisstjórn treyst velferðarkerfið í sessi og það verður áfram hlutverk Framsóknarflokksins að standa traustan vörð um það. Það verður ekki gert nema við höfum metnaðarfull markmið og höfum framsýni og kjark til að standa að breytingum.

Hagsæld í heimabyggð
Við sem erum saman komin hér á flokksþinginu óttumst þá þróun sem er í byggðamálum. Hvort sem fólk býr í borg eða sveit geta allir verið sammála um að ekki er æskilegt að allir landsmenn safnist saman á einu horni landsins. Við verðum að treysta búsetu í lífvænlegum byggðarlögum. Það er skylda okkar að halda landinu þannig í byggð og á þann eina hátt farnast okkur vel. Þetta höfum við sagt lengi og við höfum alla tíð lagt mikla áherslu á byggðamálin, á hagsæld í heimabyggð og almenna framþróun um land allt. Það hefur verið gripið til ýmiss konar ráða og við höfum verið gagnrýndir fyrir margt, fyrir fjáraustur og ofstjórn. En hvað sem því líður hefur árangur náðst víða en alltof mörg byggðarlög standa höllum fæti.
Síðasti miðstjórnarfundur okkar fjallaði um byggðamál og við erum að fylgja því eftir sem þar var ákveðið. Sá árangur birtist meðal annars í nýrri byggðaáætlun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Okkur er ljóst að það er ekki nóg að safna saman fjármagni og miðla því út um land. Fólkið á landsbyggðinni er ekki aðeins að kalla eftir fjármagni. Það kallar umfram allt á að hafa aðgang að þjónustu, öryggi í heilbrigðismálum, tækifæri æskunnar til mennta, aðgengi að menningarlífi og menningarviðburðum, öldrunarþjónustu og öryggi á efri árum, svo eitthvað sé nefnt. Fólkið í byggðarlögunum kallar eftir því að hafa sjálft meira yfir eigin málum að segja og ráða, eins og sést best í þeirri sameiningaröldu sem gengur yfir í sveitastjórnarmálum. Fólkið á þá ósk að geta aukið fjölbreytni í atvinnulífinu og að njóta forgangs í uppbyggingu iðnaðar og stóriðju. Fjölbreytt atvinnulíf er forsenda þess að eiga val og geta kosið starfsvettvang sem hæfir atgervi, áhuga og metnaði hvers og eins.
Við munum fjalla um breytingar á kjördæmaskipan á þessum vetri sem framundan er. Breytingar þær sem nú er rætt um fela í sér mikil umskipti. Samkvæmt þeim stækka kjördæmin og þingmönnum þéttbýlis fjölgar á kostnað fámennari svæða. Þessar breytingar kalla á nýja hugsun í samvinnu og samstarfi byggðarlaga. Þær kalla á breytingar á starfi stjórnmálaflokka og sterkari aðstöðu þingmanna, ef þeir eiga að geta sinnt risavöxnum kjördæmum. Enn á ný er gerð breyting í nafni sáttar og samlyndis, en það kallar jafnframt á meiri skilning á aðstöðu dreifbýlisins. Þess vegna höfum við einsett okkur að finna breyttum áherslum í byggðamálum farveg og þær koma meðal annars fram í þeirri þingsályktun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram.
En umfram allt mun okkar eigið gildismat skipta mestu máli um þróunina. Við vitum að það fylgja því kostir og gallar að búa í borg en með sama hætti eru líka kostir og gallar við að búa í sveit. Kostir fámennisins hafa verið á undanhaldi í þjóðfélagsumræðunni gagnvart kostum þess að búa í fjölmenni. Upplýsingatæknin, greiðari samgöngur og vaxandi áhugi fyrir nálægðinni við náttúruna breyta áreiðanlega hér nokkru um.
Hvað sem því líður þurfum við að efla þjónustukjarna um landið í þeim tilgangi að bjóða þar upp á sem besta þjónustu sem getur veitt höfuðborgarsvæðinu fulla samkeppni. Það er skylda ríkisvaldsins að styrkja þessa uppbyggingu, hvort sem er á sviði samgangna, heilsugæslu, mennta- eða menningarmála.
Í því sambandi er eðlilegt að við reynum að flýta þeirri samgönguáætlun sem við höfum sett okkur fram til ársins 2010 og styðjum sérstaklega við uppbyggingu menningarmiðstöðva í stærstu þéttbýliskjörnunum. Uppbyggingin verður að miða að því að hægt sé að veita þjónustu úr ýmsum áttum og aðstaða sé til að njóta hennar víðs vegar um land.

Réttindaskrá þjóðfélagsþegnanna
Það er verðugt viðfangsefni í upphafi nýrrar aldar að ráðast í að semja sérstaka "Réttindaskrá þjóðfélagsþegnanna". Þar væri reynt að skilgreina hvað það er sem þegnar landsins eiga kröfu á af hálfu almannavaldsins, bæði ríkis og sveitarfélaga og stofnana þeirra. Þetta er vandasamt verkefni, en það er hlutverk stjórnmálamannanna í víðtæku samráði við almannasamtök að skilgreina sem best rétt einstaklinga og fjölskyldna við ólíkar aðstæður í þjóðfélaginu. Réttindaskrá þessi ætti að ná til fjölmargra þátta í þjónustu við landsmenn, heilbrigðismála, menntamála, samgöngumála og velferðarmála. Nauðsynlegur þáttur í þessu verki er að leiða fram hvers vegna fólk sem greiðir sambærilega skatta fær mismunandi og misgóða þjónustu af hálfu almannavaldsins. Lítil sanngirni er í því að landsbyggðarmaður, sem leggur til jafns í sameiginlega sjóði á við borgarbúa, þurfi eins og mál standa nú að búa við lakari læknisþjónustu, senda börn sín um langan veg til skóla, hafi lélegt vegasamband, svo að aðeins sé rispað í yfirborðið á þessu máli.
Augljóst er að ekki er hægt að hafa sama þjónustustig um allar dreifðar byggðir sem framkvæmanlegt er í fjölmenni þéttbýlisins. En áreiðanlega má finna leiðir til að jafna þennan mun betur en okkur hefur tekist að undanförnu.
Jafnréttismálin eru mikilvægur þáttur í slíkri réttindaskrá þegnanna. Jafnrétti kynjanna er grundvallaratriði, en það er ekki sértækt viðfangsefni heldur vitanlega verkefni samfélagsins í heild. Í allri stefnumótun innan samfélagsins þarf að taka mið af því að báðum kynjum verði gert jafn-kleift að sinna bæði fjölskyldu- og atvinnulífi. Það er ljóst að allar ákvarðanir sem teknar eru í samfélaginu snerta konur og karla á ólíkan hátt og það er nauðsynlegt að hafa það í huga í allri ákvarðanatöku.

Öfgar einkavæðingar
Við Framsóknarmenn höfum verið fylgjandi þeirri stefnu að ríkisvaldið sjálft eigi ekki að taka þátt í atvinnustarfsemi í samkeppni við einkaaðila og rétt sé að ríkisvaldið dragi sig út úr starfsemi á fjármálamarkaði þegar frjálst flæði fjármagns milli landa er orðið að veruleika og Ísland er í raun orðið hluti af fjármálamarkaði heimsins. Öðru máli gegnir um samfélagslega þjónustu svo sem í heilbrigðismálum, skólamálum og annarri þjónustu sem mikilvægt er að þegnarnir fái notið án tillits til efnahags. Ástæðan er sú að það að vera þegn þjóðar, að vera samborgari, felur í sér að deila örlögum, samfylgd, reynslu og kjörum með öðrum. Í því sambandi er hin samfélagslega þjónusta afar mikilvæg og við eigum ekki að einkavæða skóla- eða heilbrigðiskerfið, vegna þeirrar mismununar og forréttinda útvalinna sem slík stefna getur leitt af sér. Þetta felur jafnframt í sér það mikilvæga pólitíska verkefni að tryggja ásættanlegan jöfnuð í þjóðfélaginu þannig að Íslendingar lifi sem ein samhent þjóð í landi þar sem allir hafa jöfn tækifæri.

Ræningjar æskunnar
Unga fólkið tekur við kyndlinum af okkur eins og við tókum við arfinum. Hætturnar sem æskan mætir eru meiri en áður. Miskunnarlausir glæpamenn dreifa eiturlyfjum og það er ógnvekjandi að heyra hve mörg ungmenni hafa prófað eitur þeirra. Þessi þróun er stórhættuleg öllum frjálsum þjóðum því að hún vegur að frelsi og lífshamingju einstaklinga og fjölskyldna. Þessi þróun sýnir hvað æskan er berskjölduð og hvernig ungmenni sem lífið brosir við geta villst inn á brautir glæpa og ofbeldis.
Eiturlyfjavandinn hlýtur því að verða forgangsverkefni á næstu árum, og ekki aðeins á innlendum vettvangi heldur jafnframt í nánu samstarfi þjóða heims. Við stofnuðum varnarbandalag til að berjast gegn einræði og hnignun. Varnarbandalag framtíðarinnar þarf í auknum mæli að beita sér gegn hryðjuverkum, glæpum og ræningjum æskunnar, sem eiturlyfjasalarnir eru.
Raunar er ágætt starf þegar hafið innanlands á vegum stjórnvalda. Ekkert minna dugir þó en samstillt átak, bæði í forvörnum og meðferðarúrræðum. Merkilegur árangur hefur náðst í starfi áhugasamtaka, til dæmis í baráttunni við áfengisbölið, ekki síst á vegum SÁÁ, og hafa fjöldamörg heimili fundið hamingju á ný fyrir tilstilli þeirra. Við verðum að halda áfram að leita að leiðum og úrræðum til að styrkja heimilin og aðstoða fólk við þá sjálfshjálp og samhjálp sem sæmir þjóð sem hefur fullan metnað til að mannúð og samvinna megi móta þjóðlífið.

Evrópa á hraðri ferð
Framvinda heimsmálanna einkennist af því að leiðir og landamæri opnast og þjóðirnar nálgast. Samspil alþjóðasamskipta og atvinnumála, umhverfismála og menningarmála verður sífellt flóknara og nánara. Staða Íslands er trygg í samfélagi þjóðanna um þessar mundir. Það skiptir okkur ákaflega miklu máli að staða okkar og afstaða sé trygg, stöðug, þekkt og ljós. Okkur skortir afl til að knýja einir sér á um hagsmuni okkar ef um óvissu, togstreitu og jafnvægisleysi verður að ræða í okkar heimshluta. Ísland hefur trygga stöðu í samfélagi þjóðanna með aðild að Atlantshafsbandalaginu, Norðurlandaráði, Sameinuðu þjóðunum og EES-samningnum ásamt ýmsum öðrum alþjóðastofnunum og svæðissamtökum.
Við verðum jafnframt að gera okkur vel ljóst að öll þessi mál eru á hraðri ferð. Við höfum styrkt samband okkar við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili með aukinni þátttöku í margvíslegum samstarfsverkefnum og í fyrirætlunum um að tryggja frjálsa för fólks um alla Evrópu.
Evrópusambandið er í stöðugri framþróun og breytingu. Unnið er að stækkun þess til austurs og skipulag þess og starfshættir taka áreiðanlega miklum stakkaskiptum á næsta áratug. Nú er ekki rætt um að breyta Evrópusambandinu í einhvers konar nýtt þjóðríki, heldur er mikil áhersla lögð á sjálfstæða stöðu einstakra aðildarríkja um leið og samstarfið dýpkar og vex innan sambandsins.
Kynni mín af þessum málum valda því að ég geri mér grein fyrir að innan skamms fara samstarfsaðilar okkar í EFTA að huga meira en verið hefur að aðild að Evrópusambandinu. Svisslendingar ætluðu að leysa sín mál með tvíhliða samningum en það hefur ekki gengið eftir. Líklegt má telja að Norðmenn geri nýja tilraun til aðildar, þótt líkur bendi ekki til að það verði á allra næstu árum.
Stækkun Evrópusambandsins ýtir undir þessa viðleitni, og auðvitað verðum við Íslendingar að huga vel að stöðu okkar í ljósi þeirrar þróunar sem verður á næstu árum. Heimavinna okkar er vitanlega löngu hafin, en við verðum að vinna áfram af mikilli alvöru. Unga fólkið ætlast til þess að við fjöllum fordómalaust um þessi mál og að við horfum til allra átta.
Við liggjum einnig undir ámæli fyrir að forðast umræður um Evrópusambandið. Við eigum hvorki að forðast umræður um það eða annað. Við eigum ekki að skilgreina okkur með því einu sem við erum á móti, heldur með því sem við stöndum fyrir og vinnum að. Okkar hugsjón og markmið er betri framtíð, fyrir sérhvern einstakling, fjölskyldu og byggðarlag. Okkar er að tryggja það að framtíðarkynslóðirnar eigi möguleika á að velja og hafna á grundvelli réttra upplýsinga. Þess vegna verðum við að fylgjast vel með þeirri hröðu þróun sem á sér stað í Evrópu.

Yfirráð auðlindanna
Ég hef á undan förnum árum reynt á vettvangi Evrópuríkjanna að auka skilning þeirra á því hvers vegna Íslendingar geta ekki gerst aðilar að Evrópusambandinu. Ég hef jafnframt lagt áherslu á að við viljum góða og nána samvinnu við sambandið og styðjum stækkun þess til austurs. Með því stækkar Evrópska efnahagssvæðið jafnframt og við fáum þá aðild að vaxandi markaði í Evrópu.
Ég er þeirrar skoðunar að við höfum engu tapað vegna afstöðu okkar í þessum málum. Ég tel víst að við hefðum ekki getað náð í aðildarviðræðum niðurstöðu sem hefði verið ásættanleg fyrir íslenska hagsmuni og samfélag.
En ég tel ekki rétt að útiloka það um alla framtíð að aðild geti orðið vænlegur kostur. Það er óskynsamlegt að vera með slíkar fullyrðingar og taka þannig afstöðu fyrir þá sem ráða íslensku samfélagi í framtíðinni. Við höfum aldrei hikað við að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi ef það hefur verið mat okkar að það væri til hagsbóta fyrir íslensku þjóðina. Við eigum ekki að láta stjórnast af hræðslu og ótta við hið óþekkta, heldur af yfirveguðu mati á aðstæðum á hverjum tíma.
Stærsta hindrunin gegn því að Ísland geti orðið aðili að Evrópusambandinu er sjávarútvegsstefna þess. Þótt endurskoðun hennar standi nú fyrir dyrum, tel ég að Íslendingar verði að standa utan við hana til að tryggja yfirráð mikilvægustu auðlinda sinna.
En er sá möguleiki raunhæfur að Íslendingar geti fengið að standa utan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar ef tengsl okkar við Evrópusambandið breytast?
Í hvert skipti sem ég spyr þessarar spurningar er svarið almennt neitandi. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að við látum fara fram viðamikla athugun á því með hverjum hætti slíkt gæti gerst og hvað væri viðunandi fyrir Íslendinga. Slík könnun er nauðsynlegur þáttur í metnaðarfullu starfi Íslands við að meta framtíðarmöguleika þjóðarinnar.

Sérstaða Norður-Atlantshafs
Ásættanleg lausn af okkar hálfu gæti falist í því að um hafsvæðin í Norður-Atlantshafi verði settar sérstakar reglur og sérstök stefna mótuð sem væri óháð sameiginlegri yfirstjórn Evrópusambandsins. Þetta styðst við margvísleg rök. Meðal þeirra má nefna að þessi hafsvæði liggja ekki að löndum Evrópusambandsins, að fiskistofnarnir eru ekki sameiginlegir með þeim sem Evrópusambandsmenn nýta, og að þeir hafa ekki viðurkennda veiðireynslu á þessum svæðum.
Með stækkun Evrópusambandsins til austurs kemur fjöldi ríkja inn sem á engra hagsmuna að gæta á sjávarútvegssviðinu. Þetta gæti einnig stutt þau sjónarmið að svæðisskipta sjávarútvegssviðinu.
Grænlendingar og Færeyingar standa frammi fyrir því að finna samskiptum sínum við Evrópusambandið þolanlegt form. Þeir eru ekki með í Evrópska efnahagssvæðinu og enginn vafi er á því að þetta veldur þeim verulegum vandræðum á næstu árum.
Við eigum mikla sameiginlega hagsmuni með þessum grönnum og vinum okkar, og það er einnig mikilvægt fyrir okkur að góð lausn finnist á málum þeirra. Sérstaða þessara þjóða er mikil og skýr. Það er því ekki óeðlilegt eða ósanngjarnt að fundin verði sérstök lausn fyrir þessi hafsvæði sem ekki eiga neina teljandi sameiginlega fiskistofna með ríkjum Evrópusambandsins.
Sjávarútvegsmál eru langmikilvægasti málaflokkur þessara þriggja þjóða. Þær eru því í annarri stöðu en Norðmenn sem eiga sameiginlega fiskistofna með Evrópusambandinu og eru ekki eins háðir fiskveiðum.
Ég tel nauðsynlegt að sú úttekt sem ég drap á fari fram í nánustu framtíð og að við leitum einnig samvinnu við Dani, því að það er ekki síst á ábyrgð þeirra að finna viðunandi lausn fyrir Færeyinga og Grænlendinga.

Tökum frumkvæðið
Ég sagði áðan að við ættum ekki að forðast að ræða þessi mál. Ég hef aldrei skorast undan að ræða viðkvæm og erfið mál. Ef svo væri hefði ég aldrei átt að ljá máls á því að vera í forystu í stjórnmálum. Til að taka af allan vafa er ég ekki þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi nú að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel það hins vegar skyldu mína og Framsóknarflokksins að hugsa langt fram í tímann og leita lausna sem geta þjónað komandi kynslóðum. Við bregðumst því fólki, sem á eftir okkur kemur, ef við ræðum þessi mál ekki opnum huga og könnum rækilega allar leiðir og möguleika. Það er síðan verkefni þeirra sem fara með landsstjórnina þegar þar að kemur, að taka endanlega afstöðu.
Íslendingar mega aldrei einangrast í samfélagi þjóðanna. Einu gildir hvert litið er. Við eigum allt okkar undir góðu og nánu samstarfi við aðrar þjóðir. Eins og ég benti á áður skapast hagvöxtur í íslensku atvinnulífi að miklu leyti á erlendri grund við sölu íslenskra afurða og þjónustu. Þjóðir Evrópu kappkosta að auka samstarf við nágranna sína, bæði til að tryggja frið í álfunni og velmegun allra sem þar búa, og við þurfum að eiga eðlilegan hlut í þeirri samvinnu.
Við Íslendingar hvorki getum né megum standa utan þessarar þróunar. Við erum sjálfstæð og stolt þjóð og eigum að vera það. Við erum efnahagslega vel stödd. En það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Með framsýni, dirfsku og metnaði getum við áfram tryggt stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og þar með sjálfstæði okkar, jafnt í efnahagslegu sem menningarlegu tilliti.
Ég er sannfærður um að Íslendingar eiga að taka frumkvæði um mótun sameiginlegrar stefnu varðandi hafsvæði Norður-Atlantshafs. Við eigum ekki að bíða eftir því að aðrir ákveði og ráðskist með málefni sem okkur varða. Við eigum að hafa metnað til þess að leggja okkar skerf af mörkum og móta þróunina með nágrönnum okkar og vinum fyrir sameiginlegar þarfir og hagsmuni.

Staðan á líðandi stund
Staðan í landsmálunum nú mótast ekki síst af þeirri staðreynd að Framsóknarmenn hafa staðið við kjörorð sín og fyrirheit sem lýst var fyrir síðustu kosningar.
Framsóknarflokkurinn hefur aldrei haft háleitari markmið og fyrir síðustu kosningar og tekist að uppfylla þau jafn vel.
Við sögðumst vilja beita okkur fyrir því að 12 þúsund ný störf mynduðust fyrir næstu aldamót. Þetta hefur tekist og er talið að ný störf verði um 14 þúsund um aldamótin.
Við lögðum áherslu á að hallarekstur ríkissjóðs yrði stöðvaður. Nú er ríkissjóður rekinn með afgangi og gert ráð fyrir að skuldir hans lækki um 30 miljarða á þessu og næsta ári.
Við lögðum áherslu á stöðugleika. Stöðugleiki hefur ríkt í efnahagsmálum. Verðbólga hefur verið innan við 2 % á ári og stefnir í um 1,5 % á þessu ári. Stöðugleikinn er eini raunhæfi grunnur varanlegs hagvaxtar og batnandi lífskjara.
Við kváðumst vilja stuðla að öflugum hagvexti eftir áralanga efnahagslægð. Þetta hefur tekist og lífskjör almennings hafa stórbatnað á kjörtímabilinu. Á kjörtímabilinu hefur almennur kaupmáttur aukist um 17%.
Við sögðumst vilja draga úr atvinnuleysinu. Og atvinnuleysi hefur stórminnkað.
Við sögðumst ætla að ná nýjum áfanga í orkufrekum iðnaði eftir langa kyrrstöðu. Það hefur tekist og haft örvandi áhrif á íslenskt atvinnulíf.
Með aðgerðum ríkisvaldsins hefur tekist að ná ýmsu fram í málefnum landbúnaðarins, en á því sviði þarf þó að taka betur á. Landbúnaðurinn mun áfram gegna mjög mikilvægu hlutverki í samfélaginu.
Við sögðumst vilja endurskipuleggja húsnæðislánakerfið. Lánstími húsnæðislána hefur verið lengdur og húsnæðismálakerfið verið endurmótað. Bankakerfið er í róttækri endursköpun og fjárfestingarsjóðir hins opinbera hafa verið endurskipulagðir.
Framlög til forvarnamála hafa verið aukin, og heilsugæslunni hefur verið tryggður grundvöllur sem hún getur staðið á og þróast. Lífeyriskerfi landsmanna styðst nú við nýja löggjöf, og veruleg aukning hefur verið ákveðin í framlögum til heilbrigðis- og tryggingamála.
Á sviði utanríkisþjónustunnar hafa orðið stórstígar framfarir, meðal annars til eflingar íslensku viðskipta- og atvinnulífi.
Atvinnumálin, heilbrigðismálin og menntamálin hafa verið forgangsmál í stjórnmálastörfum Framsóknarmanna og þessir málaflokkar verða það áfram framvegis sem hingað til.

Umbótastefna á miðjunni
Stjórnarsamstarf Framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokksins hefur gengið vel á þessu kjörtímabili. Ágreiningur sem vitaskuld er milli flokkanna hefur verið leystur í þeim verkefnum og vandamálum sem að höndum hefur borið. Þessir ólíku flokkar beita sér fyrir ólíkum stefnumiðum, en árangur samstarfsins hefur orðið mikill vegna þess að menn hafa náð að vinna saman af heilindum.
Þegar horft er á það sem áunnist hefur geta Framsóknarmenn verið stoltir af árangrinum og ánægðir með þau áhrif sem þeir hafa haft á gang þjóðmálanna á þessu kjörtímabili.
Sá árangur sem náðst hefur á síðustu árum er góður grunnur að áframhaldandi hagvexti og batnandi lífskjörum almennings. En hér er mikið í húfi. Festu þarf í hagstjórn til að tryggja góðæri áfram, og áfram þarf að vinna að umbótum í hagkerfinu. Þetta er einkar mikilvægt vegna þess að óróa og óvissu gætir nú í alþjóðlegum efnahagsmálum. Fyrir vikið verðum við að nýta vel meðbyrinn hér heima fyrir og búa í haginn fyrir framtíðina. Þetta verður best gert með festu og óbreyttri efnahagsstefnu í aðalatriðum.
Markmið allra stjórnmálaflokka er að ná sterkri stöðu, hafa áhrif og veita ríkisstjórn forystu. Það verður markmið okkar Framsóknarmanna héðan í frá sem hingað til. Í samræmi við þetta stefnir Framsóknarflokkurinn að því að fá styrk til þess að veita nýrri ríkisstjórn forystu. Aðeins traust þjóðarinnar á okkur og brautargengi í næstu kosningum getur komið þessu til leiðar.

Vertu með á miðjunni
Kjörorð okkar Framsóknarmanna í komandi kosningum verður ávarp til sérhvers Íslendings: - Vertu með á miðjunni -. Þetta kjörorð miðast við stöðu Framsóknarflokksins í íslenskum stjórnmálum og það miðast einnig við almenna framvindu í stjórnmálum vestrænna þjóða, en miðjuviðhorf og miðjuflokkar eru hvarvetna í öflugri sókn.
Kjörorðið, sem jafnframt er bergmál almennra strauma í stjórnmálum vestrænna lýðræðisþjóða, er hvatning til kjósenda um að fylkja sér um frjálslynda og mannúðlega umbótastefnu Framsóknaflokksins til framfara landsins alls, byggða og bæja, fjölskyldna og einstaklinga.
Með kjörorði okkar viljum við hvetja hina nýju aldamótakynslóð til dáða og kalla hana til verka á miðjunni í íslenskum stjórnmálum til að ávaxta enn frekar þann fjársjóð sem okkur hefur verið falinn.
Ég hef í ræðu minni fjallað um brýnustu viðfangsefni íslenskra stjórnmála á næstu árum. Margs hef ég ekki getið sem þó hefði verið full ástæða til að ræða. Til að mynda hef ég ekki getið um einstaka málaflokka sem ráðherrar Framsóknarflokksins fara með, en í öllum ráðuneytum hafa fjölmörg framfaramál komist í höfn. Ég vil nota tækifærið til að þakka öllu samstarfsfólkinu, öllum þeim fjöldamörgu samherjum sem leggja hönd á plóginn fyrir sameiginlegar hugsjónir okkar. Ég vil þakka sveitarstjórnarmönnum flokksins, samstarfsmönnum á Alþingi og í ríkisstjórninni.
Guðmundur Bjarnason lætur nú af störfum sem varaformaður flokksins. Það hefur verið mér ómetanlegt að hafa Guðmund mér við hlið í baráttunni fyrir stefnumálum okkar og hann hefur ávallt stýrt flokknum af öryggi í mínum forföllum. Ég vil þakka Guðmundi og fjölskyldu hans farsæl störf í þágu Framsóknarflokksins og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni.
Aldamótin eru mikil tímamót. Slík tímamót gera enn meiri kröfur til okkar allra um málefnalega vinnu, frjóar umræður og framsýnar tillögur.
Á nýju öldinni stöndum við frammi fyrir nýjum viðfangsefnum og nýrri þróun. Þjóðirnar færast saman og samstarf þeirra dýpkar og vex. Með lokum kalda stríðsins og gjaldþroti sósíalistískrar hugmyndafræði hefur ný staða skapast á taflborði stjórnmálanna. Flokkar, sem starfað hafa til hægri og vinstri, leita nú inn að miðju stjórnmálanna. Í því felst að sjálfsögðu mikilvæg viðurkenning á grundvallarsjónarmiðum Framsóknarmanna. En í þessu felst einnig töluverð hætta, því ekki er hægt að treysta fyrirheitum stjórnmálamanna og flokka þegar verkin tala allt öðru máli. Þegar á reynir verður að meta stjórnmálaflokka eftir verkum þeirra.
Stjórnmálabarátta morgundagsins mótast aðeins að litlu leyti af stjórnmálum gærdagsins. Viðfangsefnin fram undan verða miklu alþjóðlegri en verið hefur. Grundvallarafstaða stjórnmálaaflanna skiptir áfram miklu máli um það hvernig tekið verður á viðfangsefnum.
Við eigum að hafa óskoraðan metnað til halda áfram að byggja hér upp samfélag sem veitir öllum þegnum sínum tækifæri. Við verðum ævinlega að hafa hugfasta hagsmuni lágtekjuhópa og þeirra byggðarlaga sem standa höllum fæti í hagþróun sem einkennist af harðri samkeppni, fjölþjóðaviðskiptum og síbreytilegri tækni og kröfum vinnumarkaðarins.
Við stöndum á þröskuldi nýrrar aldar og nýs árþúsunds í kristinni sögu. Það er mín sannfæring að æ fleiri skipi sér í sveit frjálslyndra umbótaafla sem fólk veit í ljósi reynslunnar að hafnar öfgastefnum hvort sem eru til vinstri eða hægri. Í þessu ráðast tækifæri, sókn og sigrar Framsóknarflokksins. Trúr sögu sinni, hlutverki og frjálslyndri umbótastefnu skipar Framsóknarflokkurinn áfram öndvegi á miðju íslenskra stjórnmála í meginstraumi sinnar samtíðar.
Ég þakka öllum flokksþingsfulltrúum fyrir áhuga og fórnfúst starf í þágu þjóðarinnar allrar. Þjóðin væntir mikils af Framsóknarflokknum og við munum enn sem fyrr reynast traustsins verðir.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics