Hoppa yfir valmynd

Ráðherrafundur EFTA í Eyjum

Martin Eyjolfsson

Mikilvægt að efla skilning á sérstöðu Íslands

Þó að höfuðborgin okkar laði og lokki var það við hæfi að halda ráðherrafund EFTA 2014 í sjávarplássi. Sennilega hafa fáir byggðakjarnar innan EFTA notið jafnmikils ávinnings af EFTA samstarfinu og íslenskar sjávarbyggðir. Í kjölfar aðildar Íslands að EFTA árið 1970 féllu niður 60% tolla á íslenskar fiskafurðir og það hlutfall hækkaði í 90% við með EES samningnum 1994. Síðan þá hafa samningamenn Íslands náð enn frekari tollalækkunum bæði inn á Evrópumarkaði en einnig með fríverslunarsamningum undir regnhlíf EFTA um víða veröld.

Þó að við semjum við ríki utan EFTA í fríverslunarviðræðum þarf EFTA hópurinn að koma sér saman um sameiginlega kröfugerð áður en formleg samningsafstaða verður til. Þannig þurfum við fyrst að berjast fyrir kröfum um tollfrelsi fyrir sjávarafurðir við hin EFTA ríkin svo að óskir okkar skili sér á samningaborðið þegar við sitjum andspænis viðsemjendum okkar. Það er því brýnt að geta sýnt hinum EFTA ríkjunum hvert mikilvægi sjávarútvegs er fyrir Ísland.

Ráðherrafundir EFTA eru haldnir á Íslandi á fjögurra ára fresti og þrisvar sinnum áður hafa þeir verið haldnir úti á landsbyggðinni. Á Akureyri, Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði. Þessir fundir virðast greypast í minni félaga okkar í EFTA. Þeir minnast jökladýrðar, kyrrðar til hafs og fjalla, eldfjallaeyja og einstaks náttúrulífs. Þeir hafa líka upplifað kulda og trekk, þoku, súld og úfinn sjó og hafa fengið að kynnast því í örstutta stund hvernig það er að búa hér á norðurhjara við oft á tíðum erfiðar aðstæður jafnvel um hásumar. Það er einmitt þetta umhverfi sem skapar þær sterku minningar sem fólk ber með sér frá Íslandi og eykur skilning stöðu og högum Íslands í EFTA samstarfinu.

Gríðarleg uppbygging í ferðaþjónustunni í Eyjum

Sú mikla uppbygging, sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustunni í Eyjum, fór ekki framhjá fundargestum. Nýtt og einstakt Eldheimasafn, þar sem m.a. var undirrituð samstarfsyfirlýsing við Filippseyinga, vakti verðskuldaða athygli fundargesta auk þess sem mikil gæði gistihúsa og veitingastaða kom gestum ánægjulega á óvart. ,,Eru engin takmörk fyrir því hversu ljúfengar kræsingar kokkar bæjarins geta töfrað úr matarkistu Eyjanna“, hafði einn fundargesta á orði. 


Frá undirritun samstarfsyfirlýsingar EFTA og Filippseyja í Eldheimum. Frá vinstri: Monica Mæland, viðskiptaráðherra Noregs, Kristinn F. Árnason, framkvæmdastjóri EFTA, Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, Gregory L. Domingo, viðskiptaráðherra Filippseyja, Johann Schneider-Ammann, viðskiptaráðherra Sviss, Norbert Frick, sendiherra í Genf og staðgengill utanríkisráðherra Liechtenstein á ráðherrafundinum.


Það er nokkur áskorun að hýsa fund af þessari stærðargráðu. Ráðherrafundi EFTA sækja auk ráðherranna, þingmenn og aðilar vinnumarkaðarins, auk embættismanna. Að aðstoðar- og tæknifólki meðtöldu sóttu rúmlega 100 manns fundinn.

Gerðar eru ströngustu kröfur um allt á milli himins og jarðar og komu sendinefndir frá EFTA m.a. tvisvar sinnum til Eyja til þess að taka alla aðstöðu út fyrir fundinn. Í stuttu máli er óhætt að segja að ferðaþjónustuaðilar í Eyjum hafi allir staðist prófið með glans. Þá má ekki gleyma bæjaryfirvöldum sem buðu gesti velkomna í Eldheimum á uppphafsdegi fundarins og greiddu götu fundahaldara og gesta í hvívetna.

Það er mikil lyftistöng fyrir aðila á landsbyggðinni að fá tækifæri til þess halda ráðstefnur af þessu tagi. Eftir því sem ferðaþjónustan á Íslandi eflist eru sífellt fleiri í stakk búnir til þess að leysa verkefni sem þessi af hendi. Ráðherrafundir EFTA hafa til þessa verið haldnir til skiptist á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Með þeirri öflugu uppbyggingu ferðaþjónustu úti á landi, sem orðið hefur hin allra síðustu ár, verða atburðir af þessu tagi án efa tíðari víðar um land.

Þrátt fyrir þessar hugleiðingar mínar og þó að staðsetning ráðherrafunda skipti máli, auki skilning og geti opnað tækifæri, megum við ekki gleyma að það er innihald EFTA samstarfsins sem meginmáli skiptir. Það hefur margsannað sig fyrir Ísland og er burðarbiti í utanríkisstefnunni. Nú þegar stjórnvöld eru enn að greiða úr flækjum hrunsins og reyna að losna úr viðjum hafta og helsis er sú tenging við alþjóðasamfélagið sem EFTA vettvangurinn skapar mikilvægur sem aldrei fyrr.




Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics