Hoppa yfir valmynd

Aukafundur utanríkisráðherra NATO í Brussel

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 0009

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag aukafund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Á fundinum var meðal annars rætt um undirbúning leiðtogafundar bandalagsins, sem haldinn verður í Madríd 8. - 9. júlí næstkomandi. Ennfremur var farið yfir stöðu mála varðandi stækkun bandalagsins, innri aðlögun þess, undirbúning að stofnun Atlantshafssamstarfsráðs og samskiptin við Rússland og Úkraínu.

Utanríkisráðherra bauð nýskipaðan utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Madeleine Albright, velkomna í hóp utanríkisráðherra Atlantshafs-bandalags-ríkja. Í ræðu sinni á fundinum lagði ráðherra mesta áherslu á væntanlega stækkun bandalagsins og hvernig að henni yrði staðið. Hann ítrekaði þá afstöðu sína að kannaðir yrðu kostir þess að bjóða öllum umsóknarríkjum til aðildarviðræðna og láta framgang viðræðnanna stýra því hvenær kæmi til eiginlegrar aðildar einstakra ríkja. Að öðrum kosti yrði stækkun að vera með þeim hætti að öryggishagsmunir einstakra ríkja yrðu ekki fyrir borð bornir.

Í því sambandi lagði utanríkisráðherra áherslu á að stækkun væri opið ferli sem lyki ekki eftir leiðtogafundinn í Madríd. Það yrði að vera skýrt að bandalagið væri áfram opið fyrir nýjum ríkjum eftir að fyrstu nýju ríki yrðu fullgild aðildarríki. Ennfremur lýsti ráðherra þeirri skoðun sinni að bandalagið ætti að meta umsóknir einstakra ríkja hlutlægt og ekki útloka nein ríki fyrirfram.

Ráðherra lagði einnig áherslu á mikilvægi eflingar friðarsamstarfs Atlanthafsbandalagsins og stofnunnar Atlantshafssamstarfsráðs til þess að styrkja frekar samstarf bandalagsins við ríki Mið- og Austur Evrópu. Lýsti ráðherra einnig áhuga á gerð sérstakra "Atlantshafssamstarfssamninga" við þau umsóknarríki sem væntanlega yrðu ekki með í fyrstu umferð stækkunar en hefðu áfram hug á aðild.

Að lokum lýsti utanríkisráðherra fullum stuðningi og trausti við framkvæmdastjóra bandalagsins í samningaumleitunum hans við rússnesk stjórnvöld, en samstarf Atlantshafsbandalagsins og Rússlands mun gegna lykilhlutverki fyrir framtíðarþróun öryggismála í Evrópu.

Utanríkisráðherra átti jafnframt fund með Tansu Ciller, utanríkisráðherra Tyrklands, varðandi forræðismál Sophiu Hansen.

Reykjavík, 18. febrúar 1997

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics