Hoppa yfir valmynd

Mörg tækifæri en jafnframt miklar áskoranir fyrir íslenskt atvinnulíf á norðurslóðum

Fundargestir.

Húsfyllir var á opnum fundi um áskoranir og tækifæri Íslands og íslensks atvinnulífs vegna vaxandi efnahagsumsvifa á norðurslóðum sem utanríkisráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Íslandsstofa buðu til á Hótel Grand í dag. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flutti opnunarávarp á fundinum, sem erlendir og íslenskir sérfræðingar tóku þátt í en meðal frummælenda var Felix Tschudi, eigandi og stjórnarformaður Tschudi skipafélagsins sem vinnur að þróun siglinga um Norður-Íshafið, Tryggvi Jónsson framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Mannviti og Ágúst Ágústsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Í ávarpi sínu fjallaði utanríkisráðherra um það hvernig Ísland hefur unnið því að takast á við þær áskoranir og hættur sem fylgja auknum fjárfestingum og efnahagsumsvifum á norðurslóðum, m.a. með gerð alþjóðasamninga á vettvangi Norðurskautsráðsins um varnir gegn olíuvá, með samningi um leit og björgun og samvinnu við viðskiptalíf um innleiðingu bestu starfshátta og samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þá talaði ráðherra um sóknarfæri Íslands vegna þjónustu og umsvifa á Drekasvæðinu, Jan Mayen og austurströnd Grænlands í náinni framtíð. Hérlendis væru sterkir samgönguinnviðir tengt flugi og siglingum, mikil þekking íslensks atvinnulífs sem hefði reynslu að starfa við erfið skilyrði á norðurslóðum. Sagði Össur að eitt mikilvægasta verkefnið framundan væri að þétta og styrkja samstarf einkageirans og stjórnvalda.

Þrátt fyrir miklar áskoranir voru frummælendur sammála að mörg tækifæri væru fyrir íslenskt atvinnulíf gangi áætlanir um auknar fjárfestingar á norðurslóðum eftir en þær gætu numið allt að 100 milljörðum dollara á næstu 10 árum, m.a. vegna olíu- og gasframleiðslu, nýtingar náttúruauðlinda, uppbyggingu samgönguinnviða, ferðaþjónustu og fjarskiptatækni.

Ræða utanríkisráðherra (á ensku)

Skýrsla Charles Emmerson, Arctic Opening: Opportunity and Risk in the High North

Kynning Felix Tschudi, eiganda Tschudi skipafélagsins

Kynning Tryggva Jónssonar, framkvæmdastjóra mannvirkja hjá Mannviti

Kynning Ágústs Ágústssonar, markaðsstjóra Faxaflóahafna

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics