Hoppa yfir valmynd

Vinna, jafnrétti og traust í brennidepli á ársfundi OECD

Vinna, jafnrétti og traust voru í brennidepli á ársfundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem lauk í París í dag. Á fundinum var tekin ákvörðun um að hefja aðildarviðræður við Kólumbíu og Lettland. Einnig var tekin ákvörðun um að taka umsóknir Kosta Ríka og Litháens til umfjöllunar síðar, með það að markmiði að hefja viðræður við þau árið 2015 og vinna þangað til að því að undirbúa aðildarferli þeirra. Ísland hefur lagt ríka áherslu á aðild Eystrasaltsríkjanna tveggja, en Eistland varð aðili að stofnuninni árið 2010. Aðildarríki OECD eru í dag 34 talsins, en Ísland var eitt stofnríkja þess árið 1961. Þá voru samþykkt tilmæli um jafnrétti kynjanna á sviði menntunar, atvinnu og frumkvöðlastarfs.

Noregur leiddi ársfundinn að þessu sinni og sagði norski fjármálaráðherrann, Sigbjørn Johnsen, í opnunarávarpi sínu að öll lönd eigi mikilla hagsmuna að gæta í því að rétt sé brugðist við efnahagshruninu. Mörg þeirra verkefna sem nú séu aðkallandi þurfi ríki að leysa í sameiningu. Mikilvægt sé að ríki grípi til réttra aðgerða, bæði heima fyrir og á alþjóðavísu, svo það megi takast að skapa atvinnu, efla hagvöxt og bæta stöðu almennings. Á fundinum snérust umræðurnar m.a. um mikilvægi þess að allir njóti góðs af hagvexti og þess að auka tiltrú almennings á stjórnkerfi og viðskiptalífi, sem og að tryggja sjálfbæran hagvöxt til framtíðar. Berglind Ásgeirsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart OECD, fór fyrir sendinefnd Íslands.

OECD gaf út nýja hagspá á fundinum. Þar kemur m.a. fram að spáð er lítilsháttar hagvexti í þróuðum ríkjum á seinni hluta þessa árs og á næsta ári, en að þróunin verði afar mismunandi eftir löndum. Þannig er gert ráð fyrir meiri hagvexti í Bandaríkjunum og í Japan, en í öðrum aðildarríkjum OECD. Spáð er samdrætti á evrusvæðinu á þessu ári, en jákvæðum hagvexti á næsta ári. Þá verði hagvöxtur í Kína áfram mikill, en þó minni en spáð var í síðustu skýrslu OECD fyrir um hálfu ári. Að mati OECD er atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks, eitt helsta viðfangsefni stjórnvalda um þessar mundir.
 
Í kaflanum um Ísland er því spáð að hagvöxtur verði um 1,9% á þessu ári og 2,5% á því næsta. Forsendur þessarar spár eru að áætlanir um aukna fjárfestingu á sviði orkumála gangi eftir. Búist er við að áfram dragi úr atvinnuleysi og það verði minna en 5% á næsta ári. Í kjölfar hertrar peningastefnu og styrkingu krónunnar er búist við að það dragi úr verðbólgu, en að hún verði samt umfram verðbólgumarkmið.  Að mati OECD er frekari aðgerða þörf til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og til að vinda ofan af skuldum hins opinbera. Telur OECD mikilvægt að íslensk stjórnvöld sýni áfram aga í ríkisfjármálum og styrki lagaramma um fjárlagagerð. Áfram megi nota stýrivexti sem stjórntæki til að skapa stöðugleika og styðja við afnám gjaldeyrishafta, þegar þar að kemur.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics