Hoppa yfir valmynd

Fundur utanríkis- varnarmála- dómsmála- og innanríkisráðherra Evrópuráðsins í Brussel 20. nóvember.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu

Nr.118

Utanríkisráðherrar, varnarmálaráðherrar og dómsmála- og innanríkisráðherrar Evrópusambandsins, umsóknarríkja um aðild að ESB og evrópskra NATO-ríkja utan ESB komu í dag saman til funda í Brussel. Á fundi utanríkis- og varnarmálaráðherranna var fjallað um meginmarkmið ESB um að koma á fót 60 þúsund manna hraðliði samtakanna til að takast á við svokölluð Petersberg-verkefni í friðargæslu, sem felast í mannúðarmála- og neyðaraðstoð, friðargæslu og hernaðaraðgerðum til að koma á friði. Á fundi dóms- og innanríkisráðherra var fjallað um áætlun ESB um að efla getu sína í borgaralegri friðargæslu, sem einkum snýst um að stofna 5 þúsund manna lögreglulið á vegum ESB til aðgerða erlendis. Samstarfsríkjum gafst kostur á að greina frá útfærslu fyrri fyrirheita um framlög til herliðsins og að lýsa áhuga á þátttöku í lögregluliðinu.
Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra, sat fund dómsmála- og innanríkisráðherra. Á fundinum kom fram mikil samstaða og áhugi samstarfsríkjanna á þátttöku í hvers kyns stjórnun hættuástands. Ráðherrarnir voru sammála um að hryðjuverkin í Bandaríkjunum hefðu breytt sýn ríkjanna á öryggismál. Nauðsynlegt væri að Evrópuríkin væru samstíga í að koma í veg fyrir að órói og átök á einstökum svæðum breiddust út. Sólveig sagði í ræðu sinni að stjórnvöld á Íslandi fylgdust áhugasöm með þróun borgaralegrar hættuástandsstjórnunar innan ESB enda væri það svið þar sem þau gætu vel lagt af mörkum. Í því samhengi gerði hún stuttlega grein fyrir stofnun Íslensku friðargæslunnar sem hefur formfest og lagt grunninn að frekari þátttöku íslenskra sérfræðinga, þ.á.m. lögreglumanna, í fjölþjóðlegum friðargæsluaðgerðum. Vonaðist hún til að nákvæmari útfærsla lögreglusamstarfs ESB og samstarfsríkja yrði kynnt innan tíðar.
Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Brussel, sat fund utanríkis- og varnarmálaráðherra fyrir hönd Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra. Í máli sínu lagði hann áherslu á að í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum væru hefðbundin skil á milli ytra og innra öryggis ríkja orðin enn óljósari. Gera mætti ráð fyrir að afleiðinga ódæðisverkanna yrði vart í mótun og framkvæmd sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ESB. Hann sagði að þessi þróun styrkti ásetning íslenskra stjórnvalda um að leggja sitt af mörkum til framkvæmdar meginmarkmiðs ESB. Því næst gerði hann grein fyrir áformum um mögulega þátttöku íslenskra friðargæsluliða í fyrirhuguðum aðgerðum á vegum ESB en íslensk stjórnvöld hafa þegar tilkynnt lögreglumenn, hjúkrunarfólk og Alþjóðabjörgunarsveitina sem framlag til meginmarkmiðsins.




Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 20. nóvember 2001.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics