Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherrafundur Eystrasaltsráðsins 2-3.júlí

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


    Nr. 63

    Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, sat utanríkisráðherrafund Eystrasaltsráðsins er haldinn var í Riga í Lettlandi 2.-3. júlí 1997.

    Helsta umræðuefni fundarins var framkvæmdaáætlun Eystrasaltsráðsins og mat á árangri er náðst hefur af hennar völdum frá því hún var samþykkt fyrir einu ári. Í framkvæmdaáætlun ráðsins er lögð áhersla á samræmdar aðgerðir aðildarríkja á sviði lýðræðisþróunar, mannréttindamála, mennta- og efnhagsmála, efnahags- og umhverfismála.

    Í máli sínu vakti utanríkisráðherra athygli á auknu vægi svæðisbundinnar samvinnu og mikilvægi Eystrasaltsráðsins í því að efla stöðugleika og öryggi í Evrópu. Einnig minnti utanríkisráðherra á reynslu Norðurlanda af innbyrðis samstarfi og fagnaði auknu samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs við Eystrasaltsráðið. Utanríkisráðherra lagði ennfremur áherslu á mikilvægi samstarfs á sviði efnahags- og viðskipta við Eystrasalt og á öfluga baráttu aðildarríkja gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

    Utanríkisráðherrafundurinn samþykkti að setja á laggirnar fasta skrifstofu Eystrasaltsráðsins í einu aðildarríkja ráðsins.

    Aðildarríki Eystrasaltsráðsins eru Norðurlöndin fimm, Eistland, Lettland, Litháen, Rússland, Pólland og Þýskaland, auk þess sem Evrópusambandið á aðild að ráðinu.

    Fulltrúar Bandaríkjanna, Frakklands og Úkraínu sátu að þessu sinni fund utanríkisráðherranna sem áheyrnaraðilar.

    Yfirlýsing utanríkisráðherrafundar Eystrasaltsráðsins er hjálögð.


    Utanríkisráðuneytið,
    Reykjavík, 3. júlí 1997

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics