Hoppa yfir valmynd

Nr. 087, 5. október 1998:58. fundur þróunarnefndar Alþjóðabankans.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu



Nr. 087

Halldór Ásgrímsson, utanríkis- og utanríkisviðskiptaráðherra sat í dag 58. fund þróunarnefndar Alþjóðabankans í Washington. Utanríkisráðherra hefur forystu fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í nefndinni. Í henni eiga sæti 24 ráðherrar fyrir hönd hátt á annað hundrað aðildarríkja bankans. Nefndin mótar meginstefnu Alþjóðabankans í aðstoð við þróunarlöndin.

Á dagskrá fundarins voru umræður um efnahagsástandið í Asíu; verkefni bankans til aðstoðar skuldugustu þróunarlöndunum (HIPC - Heavily Indebted Poor Countries Initiative); aðstoð við fyrrum stríðshrjáð lönd; samstarf Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins; og að síðustu var rætt um fjárhagslega stöðu bankans.

Halldór Ásgrímsson lagði, af hálfu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, fram yfirlýsingu þar sem fram kemur afstaða þeirra til fyrrgreindra umræðuefna.

Miklar umræður áttu sér stað um ástandið á fjármálamörkuðum Asíu og aðgerðir bankans til aðstoðar löndum sem orðið hafa fyrir áföllum vegna kreppunnar. Í máli sínu sagði utanríkisráðherra að kreppan í Asíu, auk alvarlegs efnahagsástands í Rússlandi og á öðrum vaxandi mörkuðum, kalli á alþjóðlegar aðgerðir þar sem Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gegna lykilhlutverki.

Hann lagði áherslu á að aukið flæði fjármagns til þeirra landa sem nú eiga í þrengingum sé einungis hluti af lausn kreppunnar. Það sé ekki síður mikilvægt að endurbæta skipulag fjármálamarkaða og rekstrarumhverfi fyrirtækja, auk þess sem aukna áherslu verði að leggja á velferðarmál. "Löndin sjálf verða að bera meginábyrgð á þessum endurbótum" sagði utanríkisráðherra, hlutverk Alþjóðabankans er fyrst og fremst að veita ráðgjöf og fjárhagslega aðstoð við langtíma stefnumörkun og uppbyggingu.

Utanríkisráðherra sagði Norðurlönd og Eystrasaltsríkin hafa áhyggjur af ástandi velferðarmála sem afleiðingu þeirrar efnahagskreppu sem nú ríkir. Bankinn þurfi því að taka þátt í lausn skammtíma vandamála, svo sem að auka fæðuöryggi, tryggja menntun og lágmarks heilsugæslu. Þessar aðgerðir verði hinsvegar að falla að langtímamarkmiðum bankans. Hann sagði það hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að veita skammtíma neyðarlán sem stuðla að efnahagslegum stöðugleika.

Þá sagði utanríkisráðherra að bætt stjórnarfar sé ein forsenda árangursríkra efnahagsumbóta og -stjórnunar. Hann óskaði eftir því að bæði Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn auki áherslu á þessi mál í verkefnum sínum.

Utanríkisráðherra fagnaði aukinni áherslu Alþjóðabankans á uppbyggingarstarf í fyrrum stríðshrjáðum löndum. Hann sagði slíka aðstoð vera mikilvægt framlag til að tryggja öryggi í umræddum löndum. Í þessu samhengi lagði ráðherrann áherslu á að aðrar stofnanir, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar, auk annarra marghliða, sem og tvíhliða þróunarstofnana taki þátt í þessu mikilvæga starfi. Hann hvatti Alþjóðabankann eindregið til að halda áfram þessu starfi og óskaði eftir nákvæmri áætlun sem kynnt yrði á fundi þróunarnefndarinnar í apríl á næsta ári.

Um samstarf Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði utanríkisráðherra að yfirstandandi efnahagskreppa sýni nauðsyn þess að tryggja að stofnanirnar bregðist skjótt við alvarlegum efnahagsatburðum með samþættum aðgerðum. Hann hvatti stjórnendur beggja stofnana til að leggja aukna áherslu á bætt samstarf og sagði mikilvægt að áþreifanlegum aðgerðum verði hrundið í framkvæmd.

Að lokum sagði utanríkisráðherra nauðsynlegt að viðhalda fjárhagslegum styrk Alþjóðabankans svo hann geti áfram veitt þróunarlöndum nauðsynlega þjónustu. Sagði hann mikilvægt að hlutverk bankans sem þróunarstofnunar sé tryggt. Fagnaði hann tillögu forseta bankans um að láta fara fram úttekt á langtímafjármagnsþörf stofnunarinnar.

Meðfygjandi er yfirlýsing utanríkisráðherra.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 5. október 1998.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics