Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra undirritar samstarfssamning við alþjóðasveit Landsbjargar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og Sigurgeir Guðmundsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undirrituðu í dag samkomulag og samstarfssamning sem felur í sér afnot af þremur byggingum ráðuneytisins á öryggissvæði við Keflavíkurflugvöll. Byggingarnar verða notaðar fyrir búnað alþjóðasveitarinnar sem hefur verið með samstarfssamning við ráðuneytið um nokkurra ára skeið og meðal annars tekið þátt í rústabjörgun á erlendri grund á vegum Íslensku friðargæslunnar.

"Það er afar ánægjulegt að geta nýtt byggingar á öryggissvæðinu með þessum hætti og aukið stuðninginn við starf alþjóðasveitarinnar,"sagði Ingibjörg Sólrún við undirritunina. Með geymslu búnaðarins í byggingum við Keflavíkurflugvöll er hægt að stytta viðbragðstíma alþjóðasveitarinnar töluvert, komi til þess að hún verði send til starfa við rústabjörgun erlendis. Utanríkisráðuneytið styður sveitina til þátttöku í erlendu samstarfi og við að tryggja að sveitin sé ávallt í viðbragðsstöðu. Íslenska friðargæslan og alþjóðasveitin vinna jafnframt að skoðun á mögulegri þjálfun heimamanna í tengslum við verkefni friðargæslunnar á átakasvæðum, til að byggja upp þekkingu á viðbrögðum við náttúruhamförum.

Sigurgeir segir húsnæðið á öryggissvæðinu breyta miklu. „Aðstaða sveitarinnar hefur stórbatnað og nálægðin við millilandaflugið bætir aðgengi að flutningum á búnaði og mannskap á hamfarasvæði. Þetta styttir ferilinn og þar með útkallstímann."

Alþjóðasveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar var stofnuð árið 1999 með samkomulagi milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar, utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Íslenska alþjóðasveitin er á viðbragðslista íslensku friðargæslunnar. Sveitin fór í sitt fyrsta útkall árið 1999 þegar að hún fór til Tyrklands í kjölfar mikilla jarðskjálfta. Einnig hefur hún farið til Alsír, Marokko og Tælands.

Sveitin er aðallega byggð upp sem rústabjörgunarsveit en Slysavarnafélagið Landsbjörg er aðili að INSARAG sem eru regnhlífarsamtök alþjóða rústabjörgunarsveita sem starfa innan Sameinuðu þjóðanna. Í sveitinni eru björgunarmenn sem hafa sérhæft sig í rústabjörgun, læknir, bráðatæknar, sérfræðingar í eiturefnum, fyrstuhjálpar- og fjarskiptamenn, alls um 70 manns. Gert er ráð fyrir að sveitin geti starfað án utankomandi aðstoðar í 10-14 daga.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics