Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra á ráðherrafundi Evrópuráðsins

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra ásamt Timo Soini og Thorbjørn Jagland - mynd

Framtíð Evrópuráðsins og staða mannréttindamála í Evrópu voru helstu umræðuefnin á ráðherrafundi ráðsins sem lauk í Helsinki í dag. Ráðið fagnar sjötíu ára afmæli um þessar mundir og sótti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra athöfn í tilefni þess.

Ráðherrafundur Evrópuráðsins fór að þessu sinni fram í Helsinki en Finnland er fráfarandi formennskuríki ráðherranefndar ráðsins. Í upphafi fundar í gær undirritaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra samning Evrópuráðsins um aðgang að opinberum skjölum fyrir hönd Íslands. Jafnframt var haldin athöfn í tilefni af sjötíu ára afmæli ráðsins, en ráðið var stofnað þann 5. maí árið 1949. „Evrópuráðið hefur komið til leiðar mikilvægum umbótum í þágu borgaranna og átt þannig drjúgan þátt í að gera mannréttindi, lýðræði og réttarríkið að grunnstoðum í samfélögum okkar. Saga Evrópuráðsins hefur þó ekki verið án áskorana. Á síðustu árum hefur það til dæmis glímt við erfiðleika sem tengjast innlimun Rússlands á Krímskaga,“ sagði Guðlaugur Þór, en á fundinum var farið yfir afstöðu Rússa innan ráðsins og tengdar áskoranir.

Á ráðherrafundinum, sem lauk í dag, voru umræður um ársskýrslu Thorbjørns Jagland, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Meðal annars var rætt um endurbætur á starfsemi ráðsins, ógnir við tjáningar- og fjölmiðlafrelsi í álfunni og stöðu mannréttindamála. Í ræðu sinni á fundinum undirstrikaði ráðherra meðal annars mikilvægi þess að aðildarríki ráðsins tryggi mannréttindi hinsegin fólks og komi í veg fyrir mismunun og árásir gagnvart því. „Vernd mannréttinda er grundvallaratriði og því hef ég lagt sérstaka áherslu á þann málaflokk í framkvæmd utanríkisstefnunnar. Í því sambandi má nefna að Ísland fullgilti á síðasta ári samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu við ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi,“ sagði utanríkisráðherra.

Fundinum lauk með því að Frakkland tók formlega við formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins til næstu sex mánaða. Í tengslum við fundinn átti utanríkisráðherra einnig tvíhliða samtal við starfsbróður sinn frá Póllandi, Jacek Czaputowicz, þar sem málefni nýs Herjólfs voru meðal annars rædd.

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1

Tags

16. Friður og réttlæti

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics