Hoppa yfir valmynd

Páll Hreinsson skipaður dómari við EFTA-dómstólinn

Páll Hreinsson
Páll Hreinsson

EFTA–ríkin sem aðild eiga að EES-samningnum, Ísland, Noregur og Liechtenstein, hafa eftir tilnefningu Össuar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, skipað dr. Pál Hreinsson hæstaréttardómara til að vera dómari við EFTA dómstólinn frá 15. september nk. Þorgeir Örlygsson lætur þá af því starfi og tekur sæti í Hæstarétti.

EFTA-dómstólinn er starfræktur á grundvelli EES-samningsins til að leysa úr ágreiningsmálum um framkvæmd samningsins. Stjórnvöld í EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES-samningnum standa sameiginlega að skipun í stöðuna.

Dómari við EFTA-dómstólinn skal óvefengjanlega vera öðrum óháður og uppfylla skilyrði til að skipa æðsta dómaraembætti í heimalandi sínu eða hafa getið sér sérstakan orðstír sem lögfræðingur. Hæfisskilyrðin eru að þessu leyti sambærileg við hæfisskilyrði dómara við Evrópudómstólinn.

Með hliðsjón af þeirri skipan sem viðhöfð er við val á dómaraefni við Evrópudómstólinn ákvað utanríkisráðherra að að hæfni þeirra sem sóttust eftir tilnefningu í stöðu dómara við EFTA-dómstólinn skyldi metin af sérstakri nefnd á sams konar hátt og umsækjendur um embætti hæstaréttardómara.

Í nefndinni áttu sæti Guðrún Erlendsdóttir fv. forseti Hæstaréttar, Þorgeir Örlygsson fráfarandi dómari við EFTA-dómstólinn og verðandi hæstaréttardómari og Kristján Andri Stefánsson sendiherra og fv. stjórnarmaður í Eftirlitsstofnun EFTA, sem jafnframt var formaður nefndarinnar.

Samkvæmt skipunarbréfi tók nefndin mið af reglum nr. 620/2010, um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Þau sem nefndin fjallaði um voru dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, varaforseti lagadeildar Háskóla Íslands, Davíð Þór Björgvinsson dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, dr. Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Róbert R. Spanó prófessor, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, og Skúli Magnússon dómritari EFTA-dómstólsins og dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Nefndin skilaði álitsgerð þar sem hún gerði grein fyrir þeim sem nefndin fjallaði um, málsmeðferð nefndarinnar og sjónarmiðum sem hún byggði mat sitt á. Það var mat nefndarinnar að allir þeir sem hún fjallaði um teldust hæfir til að taka stöðu dómara við EFTA dómstólinn en á grundvelli heildarmats á þeim sjónarmiðum sem nefndin byggði á, taldi hún að Páll Hreinsson hæstaréttardómari væri þeirra hæfastur.

Páll hefur að mati nefndarinnar sýnt yfirgripsmikla þekkingu og færni í greiningu flókinna og margþættra lögfræðilegra álitaefna og úrvinnslu þeirra í störfum sínum. Hann hefur og verið mikilvirkur á sviði vísindalegra rannsókna í lögfræði og ritað fjölmargar bækur, bókarkafla og tímaritsgreinar sem teljast til grundvallarrita í íslenskri lögfræði. Framlag hans á sviði lögfræði telst því verulegt. Af þeim sökum og með vísan til dómarareynslu Páls, fjölbreyttrar reynslu hans af stjórnsýslu- og stjórnunarstörfum og öðru því er nefndin leit til, þykir hann hafa getið sér sérstakan orðstír sem lögfræðingur og telst því að áliti nefndarinnar hæfastur til að skipa embætti dómara við EFTA-dómstólinn.

Tilnefning utanríkisráðherra var byggð á framangreindri niðurstöðu nefndarinnar.

Ferilsskrá Páls er að finna hér:

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics