Hoppa yfir valmynd

Sendiráðið tók þátt í tengslamyndunarviðburði um samstarf við Rúmeníu og Búlgaríu um grænar lausnir á sviði orku og hugvits

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, flutti í morgun ávarp á vef- og tengslamyndunarviðburði í boði Innovation Norway undir yfirskriftinni ”Green Opportunities on Energy and Innovation with the EEA and Norway Grants in Romania and Bulgaria". Á viðburðinum gafst íslenskum fyrirtækjum færi á að tengjast fyrirtækjum í Rúmeníu og Búlgaríu til samstarfs um grænar lausnir á sviði orku og hugvits, en slíkt samstarf er styrkt af Uppbyggingarsjóði EES.

Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn, sem jafnframt er sendiráð gagnvart Rúmeníu og Búlgaríu, vinnur að því, ásamt landstengiliðum sjóðsins, að stofna til tvíhliða samstarfsverkefna með íslenskum aðilum í þessum tveimur ríkjum. Með því miðlar Ísland af þekkingu sinni og reynslu á t.d. jafnréttissviðinu, af nýtingu endurnýjanlegrar orku og í rannsóknum á ýmsum sviðum. Jafnframt eflir þetta tvíhliða samband Íslands við Rúmeníu og Búlgaríu.

Markmið uppbyggingarsjóðs EES eru að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og að styrkja tvíhliða tengsl milli framlagaríkjanna þriggja, Íslands, Liechtenstein og Noregs, og styrkþegaríkjanna sem eru fimmtán ríki innan ESB. Á tímabilinu 2014-2021 ver Uppbyggingarsjóðurinn 1,5 milljarði Evra til verkefna á ýmsum sviðum, s.s. endurnýjanlegra orkugjafa, nýsköpunar, loftslagsmála, umhverfisverkefna, menningarmála, mannréttinda, jafnréttismála, rannsókna og félagsmála. Framlag Íslands á þessu tímabili nemur 50 milljónum Evra.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics