Hoppa yfir valmynd

Opnunarhátíð Samvarðar 97

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 70


Opnunarhátíð Samvarðar '97 verður á mánudagskvöld

Almannavarnaæfingin Samvörður '97 hefst á formlegan hátt mánudaginn 21. júlí kl. 19.00 með opnunarhátíð á íþróttavellinum í Keflavík. Þar munu liðsmenn allra sautján þátttökuþjóðanna koma saman, leikin verður tónlist og flutt ávörp. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra mun flytja setningarræðuna. Á íþróttasvæðinu verður á sama tíma haldin sýning á þeim tækjum og búnaði sem þátttökusveitirnar, erlendar og íslenskar, hafa meðferðis og má þar nefna þyrlur og margs konar hjúkrunar- og björgunarbúnað. Allir eru velkomnir á opnunarhátíðina og sýninguna.

Erlendu þátttakendurnir í æfingunni byrja að koma til landsins laugardaginn 19. júli, en sjálf æfingin fer fram á suðvesturlandi dagana 25. – 27. júlí. Verður þá líkt eftir afleiðingum öflugs jarðskjálfta og mun erlenda hjálparliðið koma því íslenska til aðstoðar. Unnið verður eftir neyðarskipulagi Almannavarna ríkisins.

Æfingin er liður í friðarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins og 26 annarra Evrópuríkja, Partnership for Peace, og koma alls um 400 manns frá 16 þjóðum til Íslands til að taka þátt í henni ásamt um 600 Íslendingum. Þessar þjóðir eru Austurríki, Bandaríkin, Danmörk, Eistland, Finnland, Kanada, Lettland, Litháen, Noregur, Rúmenía, Rússland, Sviss, Svíþjóð, Úkraína, Ungverjaland og Þýskaland. Þá munu fulltrúar frá stofnun Sameinuðu Þjóðanna á sviði mannúðarmála og neyðaraðstoðar taka þátt í æfingunni.

Meðal tækjabúnaðar sem hinir erlendu aðilar koma með til landsins má nefna flytjanlegt rússneskt sjúkrahús, búið skurðar- og röntgentækjum, 11 þyrlur frá 4 löndum, 4 flutningaflugvélar frá 3 löndum, varðskip frá Noregi og sjúkrabílar, slökkvibílar og tækjabílar og margt fleira.

Erlendu þátttakendurnir munu búa og matast í íþróttahúsi Keflavíkur og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.Almenningur á suðvesturlandi gæti orðið var við æfinguna og þá einkum vegna þyrluumferðar, en reynt verður að valda sem minnstri truflun.
                                  Utanríkisráðuneytið,
                                  Reykjavík, 18. júlí 1997.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics