Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherrar Íslands og Kína funda í tilefni fimmtíu ára stjórnmálasambands ríkjanna

Samskipti Íslands og Kína í áranna rás, samstarfsmöguleikar ríkjanna á ýmsum sviðum, loftslagsmál og mikilvægi alþjóðasamstarfs voru helstu umræðuefnin á fjarfundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra með Wang Yi utanríkisráðherra Kína fyrr í dag.

Um þessar mundir eru liðin fimmtíu ár síðan löndin tóku upp formlegt stjórnmálasamband.

Á fundi þeirra Þórdísar Kolbrúnar og Wang ræddu þau samskipti Íslands og Kína, þar með talið vaxandi tengsl ríkjanna síðastliðin ár í gegnum viðskipti og samvinnu á ýmsum sviðum, sem og tækifæri til áframhaldandi samstarfs, sérstaklega á sviði umhverfismála og endurnýjanlegrar orku.

„Ýmis tækifæri liggja í aukinni samvinnu milli Íslands og Kína, ekki síst á sviði loftslagsaðgerða og endurnýjanlegrar orku,“ segir Þórdís Kolbrún. „Samstarf landanna á sviðum jarðvarmanýtingar og kolefnisbindingar getur haft þýðingarmikil áhrif í baráttunni við loftslagsbreytingar. Aukið tvíhliða- og alþjóðasamstarf getur gegnt lykilþýðingu í þeirri baráttu.“ Hún segir einnig mikilvægt að skoða hvernig hagnýta megi fríverslunarsamning ríkjanna með sem áhrifaríkustum hætti enda hafi viðskipti Kína og Íslands aukist mikið frá gildistöku hans 2013.

Ráðherrarnir ræddu einnig möguleika á beinu flugi milli landanna þegar aðstæður skapast til þess á ný. Um eitt hundrað þúsund kínverskir ferðamenn komu árlega til Íslands fyrir kórónuveirufaraldurinn. Mikilvægi alþjóðasamstarfs, innleiðing heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og virðing fyrir mannréttindum einnig til umfjöllunar.

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics