Hoppa yfir valmynd

Ræður fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

Nr. 116

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er í fullum gangi um þessar mundir og hefur fastanefnd Íslands komið afstöðu landsins á framfæri í ýmsum málum. Fastafulltrúi Íslands, Hjálmar W. Hannesson sendiherra hefur nýlega tekið til máls um breytingar á öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, málefni kvenna og endurnýjanlega orku.

Hjálmar W. Hannesson hvatti til þess í ræðu sinni á allsherjarþinginu fyrr í vikunni að samkomulag næðist um fjölgun ríkja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Stefnuyfirlýsing þessa efnis frá leiðtogafundinum árið 2000 lægi fyrir.

Hann sagði að grundvallarstefna Íslands í málinu væri skýr. Öryggisráðið yrði að endurspegla þann fjölda ríkja sem nú eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum en ríkjum hefði fjölgað úr 51 í 191 frá árinu 1945. Ísland styddi bæði fjölgun fastaríkja í öryggisráðinu og þeirra sem kjörin eru í það. Hömlur ættu að verða settar á beitingu neitunarvalds.

Hann sagði að við stækkun ráðsins væri þó mikilvægt að ákvarðanataka yrðu ekki þyngri í vöfum. Hjálmar lýsti yfir ánægju fyrir hönd Íslands með þá þróun að fjölga fundum öryggisráðsins sem eru aðgengilegir fulltrúum ríkja utan þess. Þar geti ríki utan ráðsins jafnvel lýst viðhorfum sínum. Mikilvægt væri hins vegar að tryggja betur gegnsæi í störfum ráðsins.

Hjálmar W. Hannesson hélt einnig ræðu um réttindi kvenna fyrir Íslands hönd í þriðju nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, þar sem fjallað er um félags- og mannréttindamál.

Í ræðu sinni fjallaði fastafulltrúinn um þann mun sem ríkir milli orða og athafna á sviði jafnréttismála. Hann lagði áherslu á að ekki mætti á nokkurn hátt draga úr fyrirliggjandi skuldbindingum. Markmiðið væri að bæta stöðu kvenna um allan heim. Áherslu bæri að leggja á framþróun og framkvæmd skuldbindinga.

Fastafulltrúinn skýrði frá því að Ísland legði, fyrir hönd Norðurlandanna, fram ályktunartillögu um alþjóðasamninginn um afnám alls misréttis gegn konum á þessu þingi. Hann hvatti öll aðildarríkin til að gerast aðilar að samningnum og valfrjálsu bókuninni við hann.

Hann fagnaði nýjum ályktunartillögum um þátttöku kvenna í stjórnmálum sem Bandaríkin leggja fram og gegn ofbeldi gagnvart konum sem Holland leggur fram. Hann skýrði frá aðgerðum íslenskra stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka gegn ofbeldi gagnvart konum. Að lokum minntist fastafulltrúinn á mikilvægi ályktunar öryggisráðsins nr.1325 um konur, stríð og öryggi en í lok þessa mánaðar eru þrjú ár liðin frá því að hún var samþykkt.

Einnig tók Hjálmar W. Hannesson til máls varðandi endurnýjanlega orku og sagði Ísland vera eina vestræna ríkið sem framleiðir alla raforku sína úr endurnýjanlegum og hreinum orkugjöfum í ræðu sem hann flutti í annarri nefnd allsherjarþings S.þ. Sú nefnd fjallar um efnahags- þróunar og umhverfismál.

Fastafulltrúinn hóf mál sitt á því að benda á að aðgengi að orkugjöfum sé afar mikilvægt allri þróun. Jarðefnaeldsneyti sé hins vegar hvorki ótakmörkuð auðlind né umhverfisvæn. Að þessu leyti standi Ísland vel að vígi og sé eina vestræna ríkið sem framleiðir alla raforku sína úr endurnýjanlegum og hreinum orkugjöfum. Þá greindi hann frá vetnisstrætisvögnunum og vetnisdælustöðinni í Reykjavík og starfsemi Ný-orku.

Í ræðunni var fjallað um það markmið sem íslensk stjórnvöld settu sér árið 1999 að Ísland verði sjálfbært vetnissamfélag og þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi á vetni sem orkugjafa. Einnig var minnst á nauðsyn alþjóðlegs samstarfs til að finna umhverfisvænar lausnir í orkumálum heimsins, og sagt að beislun vetnisorkunnar sé skref í þróun sjálfbærrar og umhverfisvænnar orku, t.d. sólarorku og afleiðum hennar. Þetta sé þáttur í þeim markmiðum sem sett voru á leiðtogafundinum um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg á síðasta ári.

Hjálagt fylgja ræður fastafulltrúa.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 17. október 2003














Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics