Hoppa yfir valmynd

Ísland eitt fjórtán ríkja með hæstu einkunn

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Ísland er eitt fjórtán ríkja í heiminum þar sem konur búa við jafnan rétt á við karla í atvinnulífinu, samkvæmt nýrri árlegri skýrslu Alþjóðabankans, Women, Business and Law 2023. Tvær þjóðir bættust á listann frá síðasta ári, Þýskaland og Holland, en hin ríkin tólf eru Belgía, Kanada, Danmörk, Frakkland, Grikkland, Írland, Lettland, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Svíþjóð, auk Íslands. Verulega hefur hins vegar dregið úr framförum og þær hafa ekki verið minni milli ára í tvo áratugi.

Rýnt er í lagaumhverfi og regluverk sem tengist vinnumarkaðsrétti kvenna í þessum árlegu skýrslum Alþjóðabankans. Skýrslan í ár veitir fyrsta heildstæða matið á árlegum gögnum sem safnað hefur verið um hálfrar aldar skeið. Skýrsluhöfundar segja að framfarir á þessum fimm áratugum hafi verið ótrúlegar en alls hafa um tvö þúsund lög um jafnrétti kynjanna verið samþykkt á þessum tíma. Að meðaltali hefur staða kvenna batnað um tvo þriðju á tímabilinu.

Löndunum er raðað á lista Alþjóðabankans á kvarða þar sem 100 merkir fullan og jafnan rétt kvenna. Af 190 þjóðum á listanum eru 99 með einkunnina 80 eða hærri en neðstu löndin fá minna en 30 á þessum kvarða, eins og Jemen, Súdan og Katar.

En þrátt fyrir framfarir hafa konur enn aðeins þrjá fjórðu af lagalegum réttindum karla og um 2,4 milljarðar kvenna á vinnualdri hafa enn ekki sömu lagalegu réttindi og karlmenn. Frá því í fyrra hefur aðeins í átján löndum verið innleiddar umbætur með lögum í átt að jafnrétti kynjanna. Helmingur allra umbótanna var í löndum sunnan Sahara í Afríku.

Tags

8. Góð atvinna og hagvöxtur
5. Jafnrétti kynjanna

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur

5. Jafnrétti kynjanna

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics