Hoppa yfir valmynd

Viðbótarframlag í sjóð Alþjóðabankans um neyðaraðstoð við Úkraínu

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins með Ignazio Cassis, forseta Sviss, og Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu. - mynd

Íslensk stjórnvöld munu veita alls 360 milljónir í sjóð Alþjóðabankans um efnahagslega neyðaraðstoð við Úkraínu.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins tilkynnti um 100 milljóna króna framlag í umræddan sjóð á alþjóðlegri ráðstefnu um uppbyggingu í Úkraínu sem fór fram í Lugano í Sviss í dag og í gær. Á ráðstefnunni kynntu úkraínsk stjórnvöld áform sín er varða enduruppbyggingu í kjölfar innrásar Rússlands og lögðu upp hverslags stuðning ríkið mun þurfa í því víðamikla verkefni.

Framlagið er til viðbótar við þær 260 milljónir króna sem íslensk stjórnvöld veittu fyrr á árinu í sjóð Alþjóðabankans en íslensk stjórnvöld tilkynntu fyrr á þessu ári að heildarframlag vegna Úkraínu muni að lágmarki nema einum milljarði króna á þessu ári.

Sviss, í samstarfi við Úkraínu, stóð fyrir ráðstefnunni en fulltrúar yfir 40 ríkja og stofnana tóku þar þátt. Lýstu þau yfir algjörum stuðningi við Úkraínu og uppbyggingu ríkisins og fordæmdu ólögmæta innrás Rússlands í landið.

Sameiginlega yfirlýsingu ríkjanna má finna hér.

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 2

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics