Hoppa yfir valmynd

Sendiráðið í Kampala: Áhersla á mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum

Flóð og skriðuföll í Úganda fyrr í mánuðinum, sem urðu 26 að aldurtila og skemmdu yfir 4000 heimili, eru eitt dæmi af mörgum til marks um öfga í veðurfari vegna loftslagsbreytinga. Í sendiráði Íslands í Kampala er vaxandi áhersla lögð á aðgerðir tengdar loftslagsbreytingum í samstarfshéruðunum, Buikwe og Namayingo. Í gær var skrifað undir samning við ráðgjafahóp á þessu sviði.

Muhammed Semambo frá loftslagsbreytingadeild vatns- og umhverfisráðuneytisins leiðir ráðgjafahópinn sem fær það hlutverk að meta áhættu samstarfshéraðanna gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga og styðja þau síðan til að móta aðgerðaráætlun vegna loftslagsbreytinga, eins og krafist er í lögum í Úganda frá 2021.

Þórdís Sigurðardóttir forstöðumaður sendiráðsins lagði við undirritun samningsins áherslu á mikilvægi loftslags- og umhverfismála fyrir þróun og einnig fyrir verndun mannréttinda, með vísan í núgildandi þróunarsamvinnustefnu Íslands.

Forsetar ríkja í austanverðri Afríku og af horni Afríku komu saman fyrir réttum mánuði í Kampala til að stilla saman strengi gagnvart sívaxandi ógn af loftslagsbreytingum. Samkvæmt skýrslu Alþjóðabankans eru líkur á því að allt að 86 milljónir íbúa Afríku neyðist til þess að flýja heimili sín vegna loftslagsbreytinga fyrir miðja öldina verði ekkert að gert.

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1

Tags

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics