Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherrafundur Norðurlanda í Osló

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 004

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat utanríkisráðherrafund Norðurlanda er haldinn var í Osló 4. – 5. febrúar 1997. Utanríkisráðherrarnir vöktu athygli á því, að með danskri formennsku í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, finnskri formennsku í Evrópuráðinu, setu Svíþjóðar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og öfluga þátttöku Norðurlanda í starfi Atlantshafsbandalagsins og á vettvangi Evrópusambandsins væru Norðurlöndin nú í sterkari stöðu á alþjóðavettvangi.

Málefni Evrópusamstarfsins, bæði Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins, og fyrirhuguð stækkun Atlantshafsbandalagsins, samstarf Norðurlandanna á grannsvæðum og Tyrkland voru meginefni fundarins að þessu sinni. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, hafði framsögu á fundinum um málefni Atlantshafsbandalagsins og fyrirhugaða stækkun bandalagsins síðar á þessu ári. Í máli sínu lagði utanríkisráðherra áherslu á sjálfsákvörðunarrétt ríkja í öryggis- og varnarmálum og áframhaldandi þróun friðarsamstarfs Atlantshafsbandalagsins. Utanríkisráðherra vakti sérstaka athygli á stöðu Eystrasaltsríkjanna í þessu sambandi.

Í umræðum um Evrópumálefni lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi pólitísks samráðs sem fer fram innan ramma samningsins um evrópska efnahagssvæðið og minnti á mikilvægi þess fyrir Ísland og Noreg að geta fylgst sem best með þróun ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins og að geta haft áhrif á þá þróun.

Utanríkisráðherrar Norðurlanda ræddu ennfremur grannsvæðasamstarf Norðurlanda innan vébanda Norðurskautsráðsins, Eystrasaltsráðsins og Barentsráðsins og samskiptin við Rússland. Utanríkisráðherra lagði sérstaka áherslu á eflingu hins nýstofnaða Norðurskautsráðs.

Yfirlýsing utanríkisráðherrafundar Norðurlanda í Osló 4. – 5. febrúar 1997 er hjálögð.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 5. febrúar 1997

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics