Hoppa yfir valmynd

Fjölmenni á alþjóðlegri ráðstefnu Íslands um plastmengun á norðurslóðum

Frá pallborðsumræðum á alþjóðlegu plastráðstefnunni í Hörpu. - myndKári Fannar Lárusson

Utanríkisráðuneytið, í samvinnu við matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku og loftlagsráðuneytið, stendur fyrir tveggja daga alþjóðlegri ráðstefnu um plastmengun á norðurslóðum, með áherslu á plastmengun í höfunum, sem lýkur í dag.

Ráðstefnan var haldin í Hörpu, þar sem um 120 sérfræðingar frá 18 löndum gerðu grein fyrir rannsóknum sínum á umfangi vandans, auk þess sem fjallað var um leiðir til að draga úr plastmengun og standa að hreinsun. Auk sérfræðinganna sóttu nokkur hundruð gesta ráðstefnuna, sem var ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.

„Það er viðleitni okkar, með því að halda þessa ráðstefnu, að auka vitund almennings um þetta mikilvæga og alvarlega viðfangsefni og koma á samtali milli þeirra sem rannsaka vandann og þeirra sem gegna mikilvægu hlutverki í að stemma stigu við honum,“ sagði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, í opnunarávarpi ráðstefnunnar í gær. „Við vonumst auðvitað sömuleiðis til þess að þetta framtak hvetji til ábyrgari notkunar á plasti og stuðli að öflugu átaki við að hreinsa strendur okkar og höf.“

Tildrög ráðstefnunnar má rekja til fyrri ráðstefnu utanríkisráðuneytisins um sama efni vorið 2021, þegar Ísland gegndi formennsku í Norðurskautsráðinu. Eitt af áherslumálum Íslands í formennskutíðinni var að draga úr plastmengun á norðurslóðum. 

Nú standa yfir samningaviðræður um gerð alþjóðasamnings um varnir gegn plastmengun hjá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og standa vonir til að nýafstaðin ráðstefna Íslands í Hörpu skili gagnlegu framlagi til þeirrar vinnu.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu ráðstefnunnar.

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics