Hoppa yfir valmynd

Ísland veitir viðbótarframlag til mannúðaraðstoðar

Flóttamenn frá Úkraínu koma til Moldóvu. - myndUNHCR

Í ljósi bágs mannúðarástands víða um heim ákvað Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra að veita 250 milljón króna viðbótarframlag til alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar um áramótin. Framlagið rennur til áherslustofnana Íslands í mannúðarmálum: Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (CERF), Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og til starfsemi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Moldóvu. 

Á árinu 2022 þurftu 274 milljónir manna á mannúðaraðstoð að halda og er áætlað að sú tala hækki í 339 milljónir á þessu ári. Áhrif langvarandi átaka til að mynda, í Sýrlandi, Jemen og Afganistan, ný átök svo sem stríðið í Úkraínu og alvarlegar afleiðingar loftlagsbreytinga víða í þróunarríkjum settu mark sitt á árið 2022. 

„Staða mannúðarmála er skelfileg víða um heim og er nauðsynlegt að efnaðar þjóðir eins og Ísland leggi sitt af mörkum í að bregðast við ástandinu. Mannúðaraðstoð Íslands hefur farið hækkandi síðustu ár, og liggur fyrir að hún haldi áfram að vaxa á yfirstandandi ári. Við Íslendingar erum ákaflega lánsöm og höfum ríka skyldu til að leggja okkar af mörkum,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna veitir neyðarstyrki með áherslu á snemmtækar og skilvirkar aðgerðir og gerir Íslandi kleift að leggja sitt af mörkum á fleiri landssvæðum og málefnasviðum en ella. Þrátt fyrir vaxandi neyð í heiminum drógust framlög til CERF saman á árinu 2022. 

OCHA gegnir lykilhlutverki í mannúðaraðstoð og neyðarviðbrögðum, meðal annars varðandi aðgengi fyrir mannúðaraðstoð og virðingu fyrir mannúðarlögum. Stofnunin greiddi fyrir mannúðaraðgengi í Úkraínu og gegndi lykilhlutverki í útflutningi á korni frá Úkraínu um Svartahaf.

UNHCR stendur vörð um réttindi og velferð fólks á flótta. Frá upphafi átaka í Úkraínu hafa um átta milljónir manna leitað skjóls í Evrópu og þar á meðal í Moldóvu. Moldóva er eitt fátækasta ríki Evrópu og ekki í stakk búið til að taka á móti þeim mikla fjölda sem þangað hafa leitað, og er staðan sérstaklega viðkvæm þegar vetrarkuldi herjar á.  

Tags

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

17. Samvinna um markmiðin

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics