Hoppa yfir valmynd

Tvíhliða samstarf og viðskipti efst á baugi í heimsókn ráðherra til Grænlands

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Vivian Motzfeld, utanríkisráðherra Grænlands. - mynd

Tvíhliða samstarf Íslands og Grænlands, bæði pólitískt og efnahagslegt, var í brennidepli í heimsókn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra til Grænlands í vikunni.

Í gær átti Þórdís Kolbrún fund með Vivian Motzfeldt utanríkisráðherra Grænlands. Á dagskrá fundarins var meðal annars framkvæmd samstarfsyfirlýsingar landanna, sem undirrituð var í október á síðasta ári.

Ráðherrarnir ræddu einnig sérstaklega um aukin viðskipti á milli landanna, samstarf á sviði ferðaþjónustu, háskóla og möguleg vistaskipti á milli ráðuneyta landanna.

„Grænland er næsti nágranni okkar Íslendinga og það var bæði ánægjulegt og gagnlegt að fá tækifæri til þess að kynnast betur landi og þjóð. Tvíhliða samskipti ríkjanna hafa eflst mikið á undanförnum árum sem endurspeglast meðal annars í opnun sendiskrifstofu Íslands í Nuuk árið 2013 og sendiskrifstofu Grænlands í Reykjavík árið 2018. Undirritun samstarfsyfirlýsingarinnar á síðasta ári lagði síðan enn sterkari grunn fyrir aukið samstarf á mörgum mikilvægum sviðum,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Í framhaldi af fundi ráðherranna var gefin út yfirlýsing þar sem meðal annars var ákveðið að setja á stofn sameiginlegan starfshóp sem eigi að greina fýsileika þess að gera viðskiptasamning.  

Í ferðinni, sem lauk í dag, hitti ráðherra einnig rektor Ilisimatusarfik, háskóla Grænlands og forstjóra Pinngortitaleriffik, Náttúrufræðistofnunar Grænlands og heimsótti Katuaq, menningarhúsið í Nuuk. Þá heimsótti hún einnig fyrirtæki og forstöðumenn atvinnulífsins í Grænlandi.

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 2

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics