Hoppa yfir valmynd

Ráðherra á Öryggismálaráðstefnunni í Munchen

Gunnar Bragi og Janelidze - mynd

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók um helgina þátt í hinni árlegu Öryggismálaráðstefnu Í Munchen. Meðal helstu umræðuefna voru öryggishorfur í Evrópu þar sem augu beindust ekki síst að Úkraínudeilunni og Rússlandi. Þá var umræða um stöðu mála í Sýrlandi afar fyrirferðamikil og, henni tengd, flóttamannastraumurinn til Evrópu. Einnig voru á dagskrá hryðjuverkaógn og upplýsingaöryggi, orkuöryggis- og loftslagsmál, netöryggi, heilbrigðisöryggi o.fl.

Meðal ræðumanna á ráðstefnunni að þessu sinni voru utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Rússlands, Þýskalands og Bretlands, forsetar Póllands, Finnlands og Úkraínu og forsætisráðherrar Rússlands, Noregs og Frakklands og framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.

Til hliðar við ráðstefnuna átti utanríkisráðherra fund með nýjum starfsbróður sínum frá Georgíu, Mikheil Janelidze. Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir öryggismál og samstarf innan Atlantshafsbandalagsins, fríverslunarviðræður Georgíu við EFTA og tvíhliða samskipti á sviði viðskipta og orkumála.

Öryggisráðstefnan í Munchen var haldin í 52. skipti í ár og hefur fyrir löngu náð sérstöðu sem einn allra mikilvægasti vettvangur umræðna um öryggismál í heiminum.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics