Hoppa yfir valmynd

Ræða utanríkisráðherra á 56. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 114


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, situr nú 56. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York.
Í dag flutti ráðherra ræðu í almennri umræðu allsherjarþingsins með aðaláherslu á baráttuna gegn hryðjuverkum sem hann hvatti til að sett yrði á oddinn í starfsemi Sameinuðu þjóðanna.
Í upphafi ræðunnar vék utanríkisráðherra að flugslysinu í Queens, sem átti sér stað örskömmu áður en ræðan var flutt, og vottaði aðstandendum þeirra sem fórust einlæga samúð sína.
Utanríkisráðherra lýsti stuðningi íslenskra stjórnvalda við gerð alþjóðasamnings til að stemma stigu við hryðjuverkum og vonaðist til að samkomulag næðist um slíkan samning á yfirstandandi þingi. Hann taldi baráttuna gegn hryðjuverkum gefa tilefni til að hraða eins og kostur er eflingu Sameinuðu þjóðanna, ekki síst löngu tímabærum endurbótum og endurskipulagningu öryggisráðsins. Hann ítrekaði að baráttan gegn hryðjuverkum beindist hvorki að ákveðnum kynþætti né trúarbrögðum og að forðast yrði hvers konar mismunun, útlendingahatur og fordóma. Hann lagði áherslu á að þegar Sameinuðu þjóðirnar hæfu uppbyggingarstarf í Afganistan yrði að tryggja hlut afganskra kvenna á grundvelli sögulegrar ályktunar öryggisráðsins um konur, frið og öryggi.
Ráðherra fjallaði einnig um friðargæslu og þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að auka þátttöku Íslands á þeim vettvangi innan Sameinuðu þjóðanna, NATO og ÖSE. Þá ræddi ráðherra þróun mála í Mið-Austurlöndum og lagði áherslu á að til að tryggja frið til frambúðar yrði að ná samkomulagi um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna jafnframt því að tryggja verði öryggi Ísraels innan viðurkenndra landamæra.
Ráðherra gerði sjálfbæra þróun að umtalsefni með sérstakri áherslu á yfirlýsingu ráðstefnunnar um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar, sem haldin var í Reykjavík fyrir skömmu. Hann vonaðist til að efni yfirlýsingarinnar endurspeglaðist í lokaniðurstöðum alþjóðaráðstefnunnar um sjálfbæra þróun (Ríó + 10) sem haldin verður í Jóhannesarborg á næsta ári.
Ráðherra fagnaði nýgerðu samkomulagi um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar, sem gerir ríkjum kleift að fullgilda bókunina þannig að hún öðlist gildi. Hann lagði jafnframt áherslu á að nú væri mikilvægt að fleiri en þau iðnríki sem þegar hafa lýst sig reiðubúin að fullgilda bókunina, taki á sig skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Ráðherra fjallaði um fjármögnun þróunar í ljósi alþjóðaráðstefnunnar sem ráðgert er að halda um það efni í Mexíkó á næsta ári.
Ráðherra lauk máli sínu með því að segja að Sameinuðu þjóðirnar hafi verið stofnaðar til að varðveita frið og bæta heiminn. Hryðjuverkamenn eru að gera atlögu að þeim gildum sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir. Baráttan gegn hryðjuverkum er barátta fyrir hugsjónum Sameinuðu þjóðanna, framtíð siðmenningar og mannkyns alls.
Ræðan fylgir hjálagt á ensku.





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 12. nóvember 2001.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics