Hoppa yfir valmynd

Samningurinn um alþjóðleg viðskipti með tegundir dýra og plantna í útrýmingarhættu (CITES)

Á þrettánda fundi aðildarríkja Samningsins um alþjóðleg viðskipti með tegundir dýra og plantna í útrýmingarhættu (CITES) sem stendur yfir í Bangkok, Tælandi, dagana 2. -14. október 2004, hefur verið fjallað um fjölmargar tillögur sem snerta hagsmuni Íslands beint og óbeint. Á fundinum er samstaða um að Ísland verði tilnefnt til setu í stjórn samningsins til þriggja ára.

Á dagskrá fundarins að þessu sinni er einungis ein tillaga að listun er varðar Ísland beinlínis, þ.e. skráning hrefnu, m.a. á Norður-Atlantshafi, en Japanir hafa lagt til að hrefnustofninn þar verði fluttur af viðauka I í samningum yfir dýr sem talin eru í útrýmingarhættu og settur í viðauka II yfir tegundir sem gætu verið í hættu, ef ótakmörkuð verslun með þær væri heimiluð.

Á fundinum hefur jafnframt verið rætt um margar dýrategundir undir formerkjum sem gætu haft áhrif á nýtingu íslenskra dýrategunda, þótt síðarnefndu tegundirnar séu ekki á viðaukum samningsins. Nefna má sem dæmi tillögur til listunar, sem ekki taka fullt tillit til vísindalegra gagna um ástand og útbreiðslu dýrastofna og tillögur þar sem efast má um að skráning skili árangri, t.d. þegar verslun með tegundina er óveruleg.

Í málflutningi Íslands á fundinum hefur staðfastlega verið lögð áhersla á að framfylgja bæri samningnum með þeim hætti að ekki yrði heimiluð viðskipti með dýr eða afurðir dýra í útrýmingarhættu og að haft yrði eftirlit með og komið í veg fyrir ólögleg viðskipti af þessu tagi. Jafnframt hefur Ísland litið svo á að ekki ætti að nota samninginn sem tæki til að stjórna auðlindanýtingu, enda ráð fyrir því gert að einstök ríki, réttbær svæðasamtök og alþjóðastofnanir, axli þá ábyrgð.

Á fundinum hefur Ísland tekið virkan þátt í umræðum um tillögur um skráningu á eftirfarandi dýrategundum í viðaukum: fíl, amerískum erni, Napóleonsfiski og einni tegund hákarla. Tillögur um ákvarðanir og ályktanir aðildarríkjafundarins sem Ísland hefur látið til sín taka varða hlébarða, nashyrninga og tannfisk, auk tillagna um töku úr hafi á alþjóðlegum svæðum og um samskipti alþjóðlegra stofnana og samningsins. Hefur áhersla verið lögð á að styðja sjálfbæra nýtingu og taka mið af afstöðu þeirra ríkja sem næst standa auðlindinni. Jafnframt hefur Ísland áréttað nauðsyn þess að aðildarríkjafundurinn gæti þess að virða verkefnaskiptingu milli alþjóðlegra stofnana.

Samstarfið á vettvangi samningsins tengist þátttöku Íslands í samstarfi annars staðar, m.a. á vettvangi FAO, Alþjóðahvalveiðiráðsins, Samningsins um líffræðilegan fjölbreytileika og nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Fyrir hönd Íslands sitja fundinn fulltrúar umhverfis- og sjávarútvegsráðuneyta, auk utanríkisráðuneytis, er leiðir sendinefndina.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics